75 ár frá fyrsta áætlunarflugi til Bandaríkjanna

Myndin var tekin þegar Loftleiðaflugvélin Geysir lenti í New York eftir fyrsta farþegaflug félagsins þangað frá Íslandi hinn 26. ágúst 1948. Í fremri röð á myndinni sjást þeir Guy Lawson og Charles Dorfman frá verslunarráði New York og Kristján Jóhann Kristjánsson, formaður stjórnar Loftleiða. Í aftari röð eru, talið frá vinstri: Sigríður Gestsdóttir, Hólmfríður Mekkinósdóttir, Halldór Guðmundsson, Axel Thorarensen, Sigurður Magnússon, Alfreð Elíasson, Bolli Gunnarsson, Kristinn Olsen og Hjálmar Finnsson, fulltrúi Loftleiða í New York.

Í dag eru 75 ár frá fyrsta áætlunarflugi Loftleiða á milli Íslands og Bandaríkjanna en ferðalagið tók um fjórtán klukkustundir en millilent var í Goose Bay í Kanada. Icelandair flýgur nú til New York á um það bil sex klukkustundum.

Loftferðaleyfi sem Loftleiðir fengu til Bandaríkjanna heimilaði fyrst um sinn sex áætlunarferðir í mánuði, ýmist til New York eða Chicago. Árið 1955 hóf félagið áætlunarflug á milli Bandaríkjanna og Lúxemborgar með millilendingu á Keflavíkurflugvelli. Þar með var lagður grunnur að viðskiptalíkani Icelandair sem felst í að tengja Evrópu og Norður-Ameríku um Ísland. Flugferðum hefur í gegnum árin farið fjölgandi. Þannig voru flug Icelandair til Norður-Ameríku í júlí í ár yfir 600 talsins til fjórtán áfangastaða og um 40 prósent farþega voru tengifarþegar. 

„Í dag er merkisdagur en nú eru 75 ár frá því að Loftleiðir hófu áætlunarflug á milli Íslands og Bandaríkjanna. Þessi ákvörðun er til marks um þann mikla frumkvöðlaanda sem ávallt hefur einkennt fyrirtækið og er grunnurinn að viðskiptalíkani Icelandair í dag, að tengja Evrópu og Norður-Ameríku um Ísland. Icelandair hefur nýtt staðsetningu Íslands á milli heimsálfanna til að þróa leiðakerfi sitt með árangursríkum hætti og í dag erum við Íslendingar ótrúlega vel tengd umheiminum sem skapar þjóðinni bæði samfélagsleg og efnahagsleg gæði,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu.