Áfram reynir meira á þolinmæði farþega Icelandair en Play

Það eru margir sem fara um Leifsstöð þessa dagana. MYND: ÓJ

Það er yfirlýst markmið á Keflavíkurflugvelli að farþegar komist í loftið á réttum tíma í 85 prósent tilvika. Raunveruleikinn er þó annar því allt þetta ár hefur stundvísin verið mun verri. Skást var hún í apríl þegar 77 prósent brottfara voru áætlun samkvæmt innanhúsplaggi Isavia.

Segja má að frammistaða Icelandair ráði mestu hvað þetta varðar enda er félagið það lang umsvifamesta á Keflavíkurflugvelli með nærri 6 af hverjum 10 flugferðum. Áætlun Icelandair stenst hins vegar ekki nægjanlega oft og mun sjaldnar en raunin er hjá Play eins og sjá má hér fyrir neðan.

Bilið á milli félaganna minnkaði í júlí en fyrstu 10 dagana í ágúst hefur það breikkað á ný. Þá hafa aðeins 58 prósent brottfara Icelandair verið á réttum tíma en þrjár af hverjum fjórum ferðum Play farið stundvíslega af stað.