Ekki bara París

Frakkland heldur stöðu sinni sem vinsælasta ferðamannaland heims. Flestir ferðalangar setja stefnuna á París og íbúarnir stynja undan álaginu. Samt á að bjóða enn fleirum á næsta ári þegar haldnir verða Ólympíuleikar. En Frakkland er ekki bara höfuðborgin dásamlega. Túristi naut þess að skoða sig um á Bretagne.

Við Mont Saint-Michel MYND: ÓJ

Frakkland ætlar sér að halda þeirri stöðu að vera vinsælasta ferðamannaland heims. Meðal þess sem gera á til að viðhalda og auka áhuga á Frakklandi sem áfangastað og draga fram alla þá góðu eiginleika sem Frakkar státa af er að halda Ólympíuleika á næsta ári. Áætlað er að um 11 milljónir manna flykkist til Parísar á meðan á leikunum stendur en á sama tíma fylgjast mörg hundruð milljónir manna með sjónvarpsútsendingum.

Vegna Ólympíuleikanna endar Tour de France-hjólreiðakeppnin ekki í París næsta sumar heldur í Nice. Þetta er í fyrsta skipti í sögu keppninnar sem hún endar ekki í París – MYND: ÓJ

Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, leggur ríka áherslu á að það heppnist vel að taka á móti öllum þessum gestum. Macron hefur kynnt ferðamálastefnu sem ætlað er að efla upplýsingagjöf og gagnsæi í verðlagningu gistingar. Þá á að auka tungumálaþekkingu, bæta samskiptatækni og aðgengi, efla umhverfisvitund og auka framboð staðbundinnar framleiðslu – svo eitthvað sé nefnt. En það sem er ekki síst mikilvægt í augum aðkomufólks er að forsetinn leggur ríka áherslu á að biðtími á flugvöllum minnki og almenningssamgöngur verði bættar.

Ríðandi lögreglumenn og stúlkur á hjólhestum á bakka Signu – MYND: ÓJ

Það hefur verið stefna rikisstjórna Emmanuel Macron að efla ferðaþjónustu í Frakklandi, ekki síst utan Parísar. Höfuðborgin þarf enga aðstoð við að kynna sig. Þangað streymir fólk árið um kring. París er vinsælasta ferðamannaborgin í vinsælasta ferðamannalandinu, sem fyrir heimsfaraldur, eða árið 2019, tók á móti nærri 218 milljónum manna. Í ár koma væntanlega til landsins um 165 milljónir. 

Flestir láta duga að mynda Rauðu mylluna að utan – MYND: ÓJ

Einu sinni heyrði Túristi viðtal við ungan Frakka sem dvaldi á Íslandi. Það sem vakti umhugsun var þegar þegar hann sagði frá því að hann hefði aldrei komið til Parísar – aldrei séð Eiffelturninn – en hann hafði ferðast um Ísland. Svona getur þetta verið. Heimsókn til Parísar er þó á óskalista flestra sem á annað borð hafa tök á að ferðast. Heimurinn vill sjá París – og þar með auðvitað Eiffelturninn.

En Frakkland er meira en París. Það veit Emmanuel Macron, sem fæddur er og uppalinn í Amiens, í höfuðstað Somme-sýslu í héraðinu Hauts-de-France í Norður-Frakklandi. Þó ferðamenn séu auðvitað fjölmargir í norðanverðu Frakklandi þá  telja yfirvöld ferðamála að það megi fjölga þeim þar umtalsvert. Það verði landinu til góðs að tekjurnar og álagið dreifist meira.

Eimaða eplavínið sem ber nafn héraðsins – MYND: ÓJ

 Nokkrum árum eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar voru fyrstu minnisvarðar um fallna hermenn innrásarliðsins sem frelsaði Frakkland undan nasismanum reistir í Normandí. Síðar átti eftir að verða til blómleg atvinnustarfsemi í kringum þjónustu við fyrrverandi hermenn og afkomendur þeirra sem vildu sjá vettvang átakanna og heimsækja grafreiti. Milljónir gesta hafa heimsótt þetta svæði en heldur hefur dregið úr straumnum eftir því sem tíminn líður. Síðustu hetjurnar eru horfnar á braut og smám saman leggst þoka yfir – þessi saga verður ekki jafn lifandi og áhugaverð í augum nýrra kynslóða. Ferðamálayfirvöld gera sér grein fyrir þessu og vita að það verður að lokka ferðafólk að með einhverju öðru. Áfram mun áhugafólk um mannkynssögu þó áreiðanlega vilja fara um þessar slóðir – þessa blóðvelli nútímasögunnar.

Götumynd frá Bayeux – MYND: ÓJ

Í Caen, Bayeux og á fleiri stöðum eru stríðsferðamennirnir enn mikilvægir. Þeir fara í dagsferðir niður að ströndinni og skoða lendingarstaði Bandamanna, Omaha Beach og fleiri, á þessum 70 kílómetra kafla frá Sainte-Marie-du-Mont í vestri, í gegnum Colleville-sur-Mer og Arromanches-les-Bains til Ouistreham í vestri. Normandí hefur þó miklu meira að bjóða, eins og Túristi fjallaði um í fyrrasumar. En af því að Bayeux er nefnd, þá verður auðvitað að minna á refilinn góða sem þar er varðveittur, ótrúleg er sú langa gersemi, magnað áróðursverk um innrás Vilhjálms bastarðs og Normanna í England árið 1066. 

Mont Saint-Michel – MYNDIR: ÓJ

Fjölsóttasti ferðamannastaður Normandí er þó vestast í héraðinu, þar sem Bretagne tekur við. Þetta er Mont Saint Michel, örfiriseyjan fagra, þar sem Normannar reistu kirkju, klaustur og þorp. Mont Saint-Michel laðar til sín um þrjár milljónir gesta árlega.  Þetta er lítill staður með mjög takmörkuðu aðgengi. Fólk þarf að leggja bílum sínum í nærliggjandi þorpi, þangað sem vistvænar rútur flytja áhugasama gesti út í eyna.

Vistvæn rúta flytur gesti til Mont Saint-Michel – Mynd: ÓJ

Þegar ferðamannastraumurinn er þyngstur eru biðraðir í rúturnar og innan virkisveggja eyjarinnar er stríður straumur fólks allan daginn – upp og niður. Veitingastaðir eru flestir troðnir og þröng í minjagripaverslunum. Þegar út er komið er gaman að ganga í fjörunum í kring um eyna – þangað til flæðir að. 

Frönsk stjórnvöld vilja stemma stigu við troðningstúrismanum á Mont Saint-Michel. Nýlega hafði dagblaðið Le Figaro eftir ferðamálaráðherra Frakklands, Olivia Grégoire, að tími væri kominn til aðgerða til að hemja ferðamannafjöldann á Mont Saint-Michel og á fleiri stöðum í landinu, sem þola þyrftu gríðarlegt álag. Flestir ferðamenn heimsækja aðeins allra frægustu staðina en hunsa aðra álíka áhugaverða staði. Því vilja yfirvöld í Frakklandi breyta. En það verður á brattann að sækja. Frægð í samfélagsmiðlum og í kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum ræður miklu um það hvað ferðamenn vilja sjá. Hugmyndir ráðherra í þeim efnum breyta litlu. 

Litadýrð í Cancale – MYND: ÓJ

Víst er að Bretagne hefur margt að bjóða gestum sínum: fagrar strendur, miðaldaþorp, spennandi matarmenningu, friðsæld og fegurð. Áhugafólk um byggingarlist hefur margt að skoða i vel varðveittum miðbæ höfuðborgar héraðsins, Rennes, eða í miðaldaþorpinu Dinan, svo tveir staðir séu nefndir. Áhugafólk um sögulegar tengingar Bretagne við Ísland ættu að leggja leið sína til Paimpol, lítið sjávarþorp sem varðveitir minninguna um sókn heimamanna á Íslandsmið um aldir. Safnið um Íslandssjómennina virðist þó á fallanda fæti. Það er lokað um óákveðinn tíma. 

Rennes – MYND: ÓJ

Gallette og síder í miðaldaþorpinu Dinan – MYND: ÓJ

Íslandstenging í Paimpol – MYND: ÓJ

Vilji fólk sjá leifar af miklu eldri sögu ættu steinarnir við Carnac að fjörga ímyndunaraflið. Hvers vegna tók fólk upp á því fyrir um 5.000 árum að reisa þúsundir stórra steina þarna við ströndina? Ef sögugrúsk heillar ekki þá er upplagt að hjóla þarna um sveitir eða bara flatmaga á ströndinni. 

Steinarnir dularfullu í Carnac – MYND: ÓJ

Ströndin í La Trinité-sur-Mer – MYND: ÓJ

Ein borgin við ströndina norðvestanverða hefur lengi togað til sín gesti, innlenda og erlenda, en líka óvinaheri. Það er Saint-Malo, sem státar af gamalli virkisborg, fínum baðströndum og góðum göngu- og hjólaleiðum. Efnaðir Frakkar uppgötvuðu snemma dásemdir þessa staðar, reistu fínar sumarhallir, sóttu spilavíti, skemmtistaði og veitingahús í bænum – og jöfnuðu sig svo daginn eftir með því að spássera á prómenaðinu mefram ströndinni í sínu fínasta pússi. Enn er dálítill elegans yfir Saint-Malo þó pípuhattar og síðkjólar sjáist ekki lengur. 

Saint-Malo – MYNDIR: ÓJ

Meðal þess sem vekur athygli ferðamanns í Saint-Malo er hversu lítil sölumennska er stunduð við ströndina þar sem fólk baðar sig í sól og sjó – hvorki sölubásar né sölumenn á rangli með varning, eins og svo víða er algengt að sjá. Þetta á við um fleiri strandstaði á Bretagne. Helsta ástæðan er líklega sú að Frakkar sjálfir eru í yfirgnæfandi meirihluta ferðafólks á Bretagne. Flestir virðast koma á bílum og með lestum og dveljast í íbúðum og húsum í eigu fjölskyldunnar eða að leigja sér orlofsíbúð. Útlendingarnir sem heimsækja héraðið fara á hótel eða í leiguíbúðir. 

Ostrur og hvítvin í Cancale – MYNDIR: ÓJ

Það má segja að ferðaþjónusta á Bretagne miðist ekki við að þjóna miklum fjölda – og allra síst erlendum ferðamönnum. Þeir eru auðvitað velkomnir en verða að laga sig að óskum og venjum heimamanna – Frakkanna sjálfra, ekki síst Parísarbúa, sem vilja gjarnan eiga þessa sumarparadís út af fyrir sig. „Er ekki nóg að eftirláta útlendu túristunum París, heimaborg okkar?“ gæti einhver Parísarbúinn spurt.

Mávur svífur við ströndina í Saint-Malo – MYND: ÓJ

Brimbrettakappi í Saint-Malo – MYND: ÓJ

Á meðan kæfandi molla getur lagst yfir París er þægilegur svali við ströndina á Bretagne. Veðrið þar norður frá er breytilegt, óstöðugt. Einn og sama daginn getur rignt og skinið sól. Já, svolítið eins og á mjög góðum degi á Íslandi. 

Bretagne er heillandi hérað, þar sem margt er að skoða og kanna. Það dugar ekki að fara í eina heimsókn í viku eða tvær. Flatarmál Bretagne er um 27 þúsund ferkílómetrar og er héraðið fremur strjálbýlt. Íbúafjöldi er um 3,4 milljónir og búa þar af 220 þúsund í höfuðborginni Rennes, þar sem er töluvert stuð á kvöldin enda er þetta háskólaborg.

Skemmtilegur göngustígur liggur með Côte d’Émeraude – MYND: ÓJ

Þó hægt sé að komast flestar leiðir með lestum og almenningsvögnum þá getur það verið tímafrekt og snúið á köflum. Einkabílar eru mjög áberandi og stundum of rúmfrekir í litlum þorpum. Líklega eru margir Bretónar fastheldnir einstaklingshyggjumenn, vilja ráða því hvert þeir fara, hvenær og hvernig – svolítið eins og Íslendingar, sem Bretónar eru forvitnir um. Því er vel tekið að segja Bretóna að maður kæmi ofan af Íslandi. Kannski átti Bretóninn langafa sem aldrei kom til baka úr sinni Íslandsför forðum daga að veiða fisk. 

Frá Paimpol – MYNDIR: ÓJ