Ekki minnst á gistináttaskatt

Ráðherra ferðamála sagði í síðustu viku að gistináttagjald yrði tekið upp á ný. Á blaðamannafundi fjármálaráðherra fyrir helgi var þó aðeins rætt um nýtt gjald á skemmtiferðaskip.

Auknar álögur á ferðaþjónustu eiga að skila ríkissjóði nærri 3 milljörðum á næsta ári. MYND: ÓJ

Ríkisstjórnin boðaði í sumarbyrjun auknar álögur á ferðaþjónustu sem skila eiga ríkissjóði 2,7 milljörðum króna á næsta ári. Ný álagning á skemmtiferðaskip og endurupptaka gistináttagjalds voru sérstaklega nefnd í þessu samhengi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, ítrekaði endurkomu gistináttaskattsins í viðtali við Morgunblaðið í síðustu viku og olli það töluverðri ólgu innan ferðaþjónustunnar. Meðal annars hjá þeim sem sitja í starfshópi ráðherra sem hefur það verkefni að koma með tillögur að aðgangsstýringu og gjaldtöku.

„Ég undrast yfirlýsingar ráðherra um þessi efni á sama tíma og verið er að vinna tillögur um framtíðarstefnu. Það skýtur skökku við að ráðherra greini frá hvert stefna eigi varðandi til dæmis hvað varðar gjaldtöku og aðgangsstýringu, sem eru gríðarlega mikilvæg mál fyrir framtíð ferðaþjónustunnar, meðan hópurinn er að störfum við að fjalla um þessi sömu mál,“ sagði Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, hér á síðum Túrista.

Bjarnheiður situr einnig í þeim starfshópi ferðamálaráðherra sem koma á með tillögur að aðgangsstýringu og gjaldtöku.

Á blaðamannafundi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á föstudaginn var gistináttagjald hins vegar ekki nefnt en þar fór ráðherrann yfir áherslur í ríkisfjármálum. Hann endurtók aftur á móti áformin um nýtt gjald á skemmtiferðaskip en samkvæmt upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu þá verður útfærsla á gjaldinu kynnt í tengslum við útgáfu fjármálafrumvarps í næsta mánuði.

Ekki liggur fyrir hvaða gjöld verða lög á komur skemmtiferðaskipa. MYND: ÓJ

Gistináttaskatturinn aflaði ríkissjóði um 1,3 milljörðum króna árið 2019 eða um helmingi af þeirri upphæð sem auknar álögur á ferðaþjónustu eiga að skila ríkissjóði á næsta ári.

Þess má geta að gistináttagjald er ekki innheimt af þeim sem kaupa óskráða gistingu hér á landi. Víða erlendis er bandaríska gistimiðlunin Airbnb aftur á móti tilneydd til að rukka þess háttar gjald en samkvæmt mati Hagstofunnar voru óskráðar gistinætur í júní sl. 200 þúsund talsins. Til samanburðar bókuðu útlendingar rétt um tvöfalt fleiri gistingar á hótelum landsins í þeim mánuði. Markaðurinn fyrir óskráða gistingu hér á landi er því stór.

Gistináttagjald er víða í gildi í Evrópu en þó ekki á hinum Norðurlöndunum.