Eyðing skóga boðar vandræði í Aþenu

Sérfræðingar telja að eyðing skóga og gróðurlendis í kringum Aþenu leiði til þess að hætta á flóðum aukist og hitar í borginni verði meira þrúgandi.

Aþena
Horft af Akrópólis yfir Aþenu og til fjalla MYND: ÓJ

Barátta slökkviliðsmanna við elda á þremur stöðum í Grikklandi hélt áfram í gær. Verst er ástandið í Evros-héraðinu í norðuausturhluta landsins, nærri landamærunum við Tyrkland. Höfuðstaður héraðsins er Alexandroupoli, þar sem búa um 70 þúsund manns. Talið er að gróðureldarnir þar nái yfir stærra svæði en áður hafa verið skráð af Evrópusambandinu. 

Gróðurinn gerir Aþenu lífvænlega – MYND: ÓJ

Ógnir steðja líka að höfuðborg landsins, Aþenu, eftir eldinn sem geisaði á stóru svæði í Parnitha-þjóðgarðinum. Þétt skóglendið þarna í fjalllendinu fyrir norðan Aþenu er gríðarlega mikilvægt fyrir allt lífríki. Harðgerar fururnar tryggja lífvænlegar aðstæður á svæðinu allt um kring – fyrir mikinn fjölda plantna, menn og dýr. Miklir eldar sem fóru þarna um árið 2007 og eyddu um 56 ferkílómetrum af skógi.

Nú er staðan enn verri: 59 ferkílómetrar af skógum Parnitha brunnu á aðeins tveimur dögum – á þriðjudegi og miðvikudegi í þessari viku. Verst er að það eru skammsýnir og heimskir menn sem kveikja eldanna við þessar ógnvænlegu aðstæður sem loftslagsbreytingar hafa leitt af sér.

Afleiðingar skógareyðingarinnar í Parnitha verða þær að hitar í Aþenu verða grimmari en áður og meiri hætta verður af flóðum á regntímanum. Þegar græni liturinn dofnar versnar andrúmsloftið og jarðvegurinn bindur minna vatn. Þegar græni trefillinn ofan Aþenu hverfur munu lífsgæði í borginni versna til muna.

Einu sinni þurftu Aþeningar ekki loftkælingu í híbýlum sínum. Nú er hún lífsnauðsynleg.

Og þó að furan sé þrautseig og skjóti víða rótum, þá gera ítrekaðir eldar út um lífsmöguleika hennar. Það verður því sífellt erfiðara að endurheimta gróður á þessu svæði sem áður var íðilgrænt. 

Ferðamenn leita skjóls undir trjám við Akrópólis – MYND: ÓJ