Feneyjar gætu lent á válista UNESCO

Sérfræðingar UNESCO vilja að Feneyjar og lónið fyrir utan verði sett á válista vegna þess að Ítalir hafi ekki brugðist nægilega vel við fyrri viðvörunum um að verja borgina fyrir troðningstúrisma og áhrifum loftslagsbreytinga.

Sjálfa tekin á Rialto-brúnni MYND: ÓJ

Sérfræðingar Heimsminjaskrár UNESCO meta reglulega ástand þeirra 1.157 staða sem eru á skránni. Á fyrirhuguðum fundi í Riyadh í haust mun nefnd skipuð fulltrúum 21 aðildarríkis ákveða hvort meira en 200 staðir á minjaskránni verði settir á válista. Meðal þeirra eru borgir og bæir sem ógnað er af stríðsátökum, eins og Odessa, Kænugarður og Lviv í Úkraínu – en líka Feneyjar á Ítalíu.  

Svona er þetta flesta daga í Feneyjum – MYND: ÓJ

UNESCO segir að aðgerðir sem ítölsk stjórnvöld hafi lagt til í þeim tilgangi að verja Feneyjar ágangi ferðamanna og hækkandi sjávarborðs séu ófullnægjandi og ekki nægilega vel útfærðar. Þá hafi upplýsingagjöf og samstarfsvilja verið áfátt frá því nefndin kom síðast saman 2021 og hótaði að Feneyjar yrðu settar á válista. UNESCO gefur Ítölum ekki háa einkunn í þessum efnum, það skorti alla yfirsýn, langtíma stefnu og samræmdar aðgerðir allra hagaðila til að verja Feneyjar. 

Siglt á Feneyjaflóa – MYND: ÓJ

Farþegar á báti horfa í átt að Burano og skakka turninum á eynni – MYND: ÓJ

Feneyingar hafa lengi tekist á við afleiðingar troðningstúrima sem veldur gríðarlegu álagi í hinni sögufrægu og fögru borg. Það tókst eftir langa baráttu að stöðva aðkomu skemmtiferðaskipa, sem gnæfðu yfir borgina en farþegarnir sem fóru í land skiluðu litlum tekjum.

Hugmyndir um að takmarka daglegan ferðamannafjölda með aðgangstakmörkunum og gjaldtöku hafa hinsvegar ekki gengið eftir. Þá hækkar yfirborð sjávarins stöðugt og ógnar eyjum og hólmum í lóninu fyrir utan – og á endanum sjálfum Feneyjum. 

Á gondóla á Canal Grande – MYND: ÓJ