Bandaríkjamenn hafa streymt til útlanda nú í sumar og sérstaklega til Evrópu. Sterkur dollari og útþrá eftir kórónuveirufaraldurinn hefur ýtt undir eftirspurn eftir ferðum til Evrópu. Stjórnendur flugfélaga sem einbeita sér að innanlandsflugi í Bandaríkjunum bera sig því ekki eins vel og starfsbræður þeirra hjá félögunum sem bjóða upp á tíðar ferðir yfir Atlantshafið. Gangurinn í innanlandsfluginu vestanhafs er nefnilega ekki nógu góður, fargjöldin eru á niðurleið og tómu sætin fleiri.
Farþegatölur sem Icelandair og Play birtu í gær fyrir nýliðinn júlí endurspegla þessa stöðu. Í tilkynningum beggja flugfélaga er tekið sérstaklega fram að eftirspurnin í Norður-Ameríku hafi verið mjög mikil í síðasta mánuði.
Vægi ferðamanna í þotum Icelandair og Play er líka hátt en þó mismunandi. Hjá Icelandair voru túristar á leið í Íslandsferð í öðru hverju sæti en í þriðja hverju sæti hjá Play eins og sjá má hér fyrir neðan. Hlutfall tengifarþega lækkaði hjá báðum félögum milli mánaða.
Í heildina nýttu 567 þúsund farþegar sér ferðir Icelandair í júlí og hafa þeir ekki verið fleiri í einum mánuði síðan í júlí 2019. Hópurinn hjá Play taldi 191 þúsund farþega sem er viðbót um nærri fimmtung frá júní mánuði.
Íslensku flugfélögin tvö eru þó ekki ein um að fljúga Bandaríkjamönnum til Íslands. Delta flýgur hingað frá New York, Minneapolis og Detroit og United frá Chicago.