Ferðaþjónustufólk undrast yfirlýsingar ráðherra

Töluverð ólga er meðal áhrifafólks í ferðaþjónustu vegna yfirlýsinga Lilju D. Alfreðsdóttur, ferðamálaráðherra, um hugsanlega aðgangsstýringu ferðafólks sem kemur til landsins. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF undrast yfirlýsingar ráðherra.

Ferðafólk gengur niður að Gullfossi MYND: ÓJ

Um miðjan maí skipaði Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, sjö starfshópa til að gera tillögur um aðgerðir sem fylgja myndu endurnýjaðri ferðamálastefnu. Ráðherra vonast eftir fyrstu tillögum í haust, sem kynntar yrðu í samráðsgátt stjórnvalda en síðan yrði þingsályktun um nýja ferðamálastefnu og tillögur um nauðsynlegar aðgerðir lagðar fyrir Alþingi á vorþingi.

Starfshóparnir vinna nú sitt starf og miðar því vel, eftir því sem heimildir Túrista herma. Það vakti hinsvegar ekki mikla kátínu eðal fólks í starfshópunum þegar ráðherrann sem valdi þau til ráðgjafar lýsti sinni sýn í viðtali við Morgunblaðið um jafn eldfimt efni og aðgangsstýringu og gjaldtöku.

Ferðafólk við Brimketil á Reykjanesi – MYND: ÓJ

„Það liggur núna fyrir að gistináttaskatturinn verður útvíkkaður þannig að hann muni líka ná til skemmtiferðaskipa, þannig að farþegar þeirra fara að skila meiru inn í þjóðarbúið,“ segir Lilja í viðtali við Morgunblaðið fimmtudaginn 17. ágúst en er ekki hlynnt aðgangsstýringu gagnvart skemmtiferðaskipunum. Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center-hótela, svaraði þessu á síðum blaðsins í dag og er ekki sáttur við hugmyndir ráðherra um að útvíkka gistináttaskattinn í stað þess að grípa til beinnar aðgangsstýringar. Kristófer bendir á að gistináttaskatturinn er aðeins 5 prósent af þeim sköttum og gjöldum sem hótelin greiða til hins opinbera. Það jafni því ekki leikinn eða bæti upp samfélagsáhrifin að leggja svo lágt gjald á skemmtiferðaskipin. Hefur Morgunblaðið eftir Kristófer að honum þyki ráðherra vera kominn fram úr vinnu starfshópsins sem hann situr í um samkeppnishæfni og verðmætasköpun.

Morgunblaðið hefur eftir Lilju að það sé ekki flókið að grípa til aðgangsstýringa inn í landið, þyki fjöldi ferðamanna fara fram úr hófi: „Við erum með fluggáttina og Isavia er þar með flugstæði. EF við teljum að við séum að ganga of mikið á landið okkar vegna þess að aðgangsstýring sé ekki nægileg, þá getum við alltaf stýrt aðgengi með þessari fluggátt okkar.“ Blaðið hefur þó eftir ráðherra að hún telji ekki komið að þessu.

Nýlega lýsti Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í viðtali við Túrista andstöðu við hugmyndir um komugjöld: „Ef horfa á til frekari gjaldtöku á flug og ferðaþjónustu, þá tel ég að komugjald væri ekki góð leið.“

Óhætt er að segja meðal þess sem efst er á baugi í umræðum meðal forystufólks í ferðaþjónustu og í starfshópum ráðherra er hvernig standa eigi að hugsanlegri aðgangsstýringu og gjaldtöku af ferðafólki. Ummæli Lilju D. Alfreðsdóttur í Morgunblaðinu valda því töluverðri ólgu og fljúga skeyti milli manna um hvernig bregðast eigi við. Þegar þær upplýsingar Túrista voru bornar undir Bjarnheiði Hallsdóttur, formann Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði hún:

Bjarnheiður Hallsdóttir

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðþjónustunnar – MYND: ÓJ

„Ég undrast yfirlýsingar ráðherra um þessi efni á sama tíma og verið er að vinna tillögur um framtíðarstefnu. Það skýtur skökku við að ráðherra greini frá hvert stefna eigi varðandi til dæmis hvað varðar gjaldtöku og aðgangsstýringu, sem eru gríðarlega mikilvæg mál fyrir framtíð ferðaþjónustunnar, meðan hópurinn er að störfum við að fjalla um þessi sömu mál.“ 

Bjarnheiður vill ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni en hún situr eins og Kristófer Oliversson í starfshópi ráðherra sem fjallar um samkeppnishæfni og verðmætasköpun. Á nefndin m.a. að móta tillögur um fyrirkomulag gjaldtöku, álagsstýringu og jafna dreifingu ferðamanna yfir árið og um landið.