Fleiri munu horfa til norðurs

Þýska ferðaskrifstofan TUI ( Touristik Union International), stærsta ferðasamsteypa í Evrópu, spáir meiri sókn ferðafólks til Norðurlanda, Hollands og Belgíu um hásumar vegna hita sem þá geisa Suður-Evrópu. Fleiri haldi hinsvegar suður á bóginn á vorin og haustin.

Baðströnd á Vestur-Flandri MYND: ÓJ

Ógnarlegar hitabygjur og skógareldar fá stöðugt fleiri til að huga frekar að því að ferðast um norðanverða álfuna. „Það verða breytingar,“ segir Sebastian Ebel, forstjóri TUI. Hann gerir ráð fyrir aukinni spurn eftir ferðum að vori og hausti. TUI ætli að bregðast við með fleiri ferðum til Norðurlanda, Hollands og Belgíu.

Hinsvegar segir Ebel að vel sé bókað í Grikklandsferðir alveg fram í nóvember. Hann telur að áfram verði áfangastaðir í Suður-Evrópu verði áfram vinsælir meðal ferðafólks á hefðbundnum sumarleyfistíma, í júlí og ágúst, en vaxtarmöguleikarnir séu fjær Miðjarðarhafi.

Flugvél TUI

TUI tilkynnti í dag um að yfir 5,5 milljónir manna hefðu ferðast á vegum þeirra frá apríl til júníloka en á sama tímabili í fyrra var fjöldinn 5,1 milljón. Þetta var í fyrsta skipti frá lokum heimsfaraldursins að fyrirtækið fór inn í þriðja ársfjórðung réttu megin við núllið.

„Sumarið 2023 verður gott og spurn eftir ferðalögum verður áfram mikil,“ sagði Sebastian Ebel. „Hitar í norðanverðu meginlandi Evrópu í júní og kjarr- og skógareldar í sunnanverðri álfunni hafa aðeins tímabundið slegið á þá miklu eftirspurn sem verið hefur.“ 

Á Akrópólis í sumar – MYND: ÓJ

Vegna eldanna á Ródos þurfti TUI að flytja í burtu um 8 þúsund gesti á eynni. Kostnaður vegna heimflutnings, bóta til viðskiptavina og glataðra sölutækifæra er talinn nema um 25 milljónum evra og hefur auðvitað áhrif á heildarafkomu ársins. Engu að síður er búist við afkoma TUI á árinu batni frá því í fyrra. Bókunum í sumarleyfisferðir fjölgaði um 6 prósent og verðið hækkaði um 7 prósent að meðaltali. Hitabylgjan virðist því ekki hafa kæft ferðavilja fólks. 

TUI á að hluta eða í heild fjölmargar ferðaskrifstofur, hótelkeðjur, siglingafélög, verslanir og fimm flugfélög. Samsteypan rekur stærsta flota orlofsferðaflugflota Evrópu.

TUI fékk ríkisstuðning til að koma sér í gegnum heimsfaraldurinn en greiddi þá fjármuni til baka að fullu í apríl síðastliðinn.