Miklar endurbætur hafa orðið á aðstöðu ferðafólks við Gullfoss á síðustu árum. Gestafjöldinn hefur samt sprengt utan af sér þjónustuhús með verslunum, veitingasölu og snyrtingum. Útsýnispallar eru sannarlega vel nýttir og sama er að segja um stálstiga og timburklædda göngustíga. Þarna hefur aðgengi og öryggi verið stórbætt frá því sem áður var – þó augljóst sé að að gera verður betur ef ferðamannastraumurinn helst álíka og nú – hvað þá ef ferðamönnum fjölgar.
Fyrir utan þessi vönduðu mannvirki liggur síðan slóði meðfram bergveggnum niður að fossinum – fyrir þá sem vilja komast í nánari snertingu við afl þessa mikilfenglega vatnsfalls og fanga fegurðin betur en mögulegt er uppi á útsýnispalli. Mannvirki mega ekki verða of fyrirferðarmikil á þessum stað.

Gullvæg sjálfa – MYND: ÓJ

Aðdáun og eftirvænting – MYND: ÓJ

Það komast ekki allir að í einu – MYNDIR: ÓJ
Það er nokkuð langt síðan Túristi kom síðast að Gullfossi. Nú er aðkoma öll önnur og aðstaða gesta stórbætt – en það má líka segja að friðurinn sé úti. Gestafjöldinn við Gullfoss er álíka og á fjölförnustu ferðamannastöðum Evrópu. Hver og einn þarf að sæta lagi til að komast í kjörstöðu fyrir ómissandi töku á sjálfu – eða bara til að horfa í aðdáun í friði á þennan himneska foss. Íslenskir ferðamenn virtust fáir – færri en bílstjórar leigubílanna og rútanna sem biðu þess að farþegar skiluðu sér til baka. Skipafarþegar voru áberandi.

Margir vilja komast nærri fossinum – MYND: ÓJ
Valdimar Kristjánsson, sérfræðingur á Umhverfisstofnun, hefur umsjón með friðlýsta svæðinu við Gullfoss. Hann segir að um milljón manns hafi komið að Gullfossi árlega en árið 2023 stefni í að gestafjöldinn fari vel yfir eina milljón. Þetta verður metár við Gullfoss. Ferðaþjónustan er gullfoss Íslendinga. Straumurinn þyngist með hverju ári.

Valdimar Kristjánsson
Teljið þið hjá Umhverfisstofnun að Gullfoss-svæðið ráði við álagið?
„Mikil uppbygging hefur átt sér stað á síðustu árum við Gullfoss og er hún enn í gangi. Búið er að stækka göngustíga, útsýnispalla o.fl. Auk þess hefur rekstraraðili stækkað Gullfosskaffi á síðustu árum og fjölgað salernum. Við teljum að staðurinn ráði enn við álagið þó svo að það séu toppar yfir hádaginn þegar flestir koma. Oftast eru frekar fáir snemma dags og á kvöldin.“
Verða miklar skemmdir á náttúru og slit á mannvirkjum eftir sumarið?
„Við verðum ekki vör við miklar skemmdir á náttúru þar sem svæðið er mest allt girt af. Mannvirki þola álag vel þó svo að alltaf þurfi eitthvert viðhald.“



Mikil þröng er við Gullfoss, á bílastæði og í þjónustuhúsi, þegar aðsókn er mest – MYNDIR: ÓJ
Þarf að ráðast í frekari uppbyggingu á svæðinu? Ég sá að bílastæði voru troðin.
„Já, við erum alltaf að huga að öryggi gesta sumar sem vetur. Eins erum við að bæta aðgengi fyrir alla – þar sem því verður við komið. Nýr stígur og svo áframhaldandi uppbygging tekur mið af því að stækka stíga og auðvelda vetrarþjónustu – ásamt því að bæta aðgengi hreyfihamlaðra. Því verki er ekki lokið og hefur þessu verið áfangaskipt. Það er áframhaldandi uppbygging á göngustígum. Mokað er og hálkuvarið með tækjum yfir veturinn. Bílastæðið við Gullfosskaffi og bílastæðið þar er í eigu rekstraraðila. Stæðið er vissulega vel nýtt yfir hádaginn yfir sumarið.“
Hefur einhvern tímann komið til tals að innheimta gjald af gestum? Er Umhverfisstofnun hlynnt því?
„Það hefur ekki enn komið til tals að innheimta gjald á Gullfossi. Við rekum þó ekki bílastæðið eða Gullfosskaffi, en ég hef ekki heyrt af slíkum áformum.“


Stórborgarumferð er á göngustigum við Gullfoss – MYNDIR: ÓJ
Telur þú að Gullni hringurinn haldi vinsældum sínum?
„Já, ég held að hann haldi vinsældum sínum. Þó er það jákvætt að ferðamenn dreifast betur um landið eins og gerst hefur.“
Þarf að gera úrbætur á leiðinni að Gullfossi?
„Það þarf að gera úrbætur á vegakerfi Gullna hringsins. Það stendur til að færa Biskupstungnabraut fyrir neðan Geysi þannig að bílaumferð liggi ekki þar á milli bílastæða, þjónustuhúss og hverasvæðis. Þá verður væntanlega byggð tvíbreið brú yfir Tungufljót á leið á Gullfoss.“
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni þá er unnið að frumdrögum hönnunar á nýju stæði fyrir Biskupstungabraut. Því fylgir könnun á matsskyldu, hvort nýi vegurinn fyrir neðan Geysissvæðið þurfi að fara í umhverfismat.
Í drögum að samgönguáætlun 2024-2038, sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda fyrr í sumar, er gert ráð fyrir fjárveitingu í þetta verkefni á árunum 2029-2033, þ.e. á öðru tímabili samgönguáætlunarinnar. Það er því ljóst að enn um sinn þarf straumurinn upp að Gullfossi að liggja um hlaðið fyrir framan hótel og þjónustuhús hjá Geysi og um einbreiða brú yfir Tungufljót, sem er auðvitað vanþróað mannvirki þegar hafður er í huga hversu stríður straumur bíla af öllum stærðum fer þar um. Einbreiðar brýr eru slysagildrur.


Vel yfir milljón manna fer að Gullfossi á þessu ári – MYNDIR: ÓJ
Þarna við Gullfoss stendur minnisvarði um Sigríði Tómasdóttur í Brattholti, sem fyrst allra sá gildi þess að verja og vernda fossinn – og gerði sitt til að auðvelda fólki að njóta þess að horfa á hann. Sigríður og systur hennar í lögðu fyrsta göngustíginn að Gullfossi fyrir konungskomuna 1907. Síðan gerðist harla fátt í áratugi.
Sumarið 1964 fór Gísli Sigurðsson, blaðamaður og listmálari, að Gullfossi og skrifaði grein um heimsóknina í Vikuna 16. júlí. Hann undrast aðstöðuleysið og bárujárnsskúrana sem væru í „átakanlegu misræmi“ við náttúruundrið Gullfoss. Gísli segir:
„Að undanförnu hefur verið rekinn veitingaskáli við Gullfoss. Hann er hreinlegur og þar fær maður mun betra kaffi en víða annarsstaðar í sumar-veitingahúsum. Skálinn er bárujárnsklæddur og eins fátæklegur og hugzazt getur á móti fegurð Gullfoss. Ekki er nein von til þess að einstaklingar leggi í það að byggja glæsilegt hús á stað, sem dregur til sín ferðamenn í þrjá mánuði ársins. Fyrir því er ekki fjárhagsgrundvöllur. Um þessháttar framkvæmd verður öll þjóðin að standa saman; ríkið verður að byggja glæsilegan veitingaskála við Gullfoss, það vel úr garði gerðan, að staðnum sé ekki vansæmd að.“
Fleira ritar Gísli Sigurðsson:
„Eftir Þingvöllum, Laugarvatni og Geysi, er Gullfoss fjórði ferðamannaáfanginn í röð þegar farið er um Suðurland. Þessir staðir eru eins og perlur á bandi, hluti af auðlegð landsins, en hingað til hafa þessir staðir legið vanræktir í þagnargildi miðað við það sem hægt væri að gera.„
Gísli var sjálfur fæddur og uppalinn í Úthlíð í Biskupstungum. Hann lést 2010 og auðnaðist ekki að sjá þau mannvirki sem nú eru risin við Gullfoss. Hann og aðrir úr þessari sveit hafa tæplega getað ímyndað umferðarþungann á veginum upp sveitina og að árlegur gestafjöldi við fossinn færi vel yfir eina milljón.


Draumastaður fyrir myndatökur – MYNDIR: ÓJ