Það voru nærri eitt hundrað þúsund farþegar sem nýttu sér áætlunarferðir milli Keflavíkurflugvallar og Dallas í Texas sumarið 2018 en þá var í fyrsta sinn boðið upp á Íslandsflug frá bandarísku borginni. Og framboðið var merkilega mikið því American Airlines, Icelandair og Wow Air héldu öllu úti tíðum ferðum á þessari leið.
Segja má að þau tvö fyrrnefndu hafi í raun verið að bregðast við auknum umsvifum flugfélags Skúla Mogensen.
Það var nefnilega í lok sumarvertíðar árið 2017 sem Wow Air hóf sölu á flug til Dallas og nokkrum dögum seinna tilkynnti Icelandair að félagið ætlaði líka að fara þessa leið næsta sumar. Tveimur mánuðum síðar boðaði American Airlines svo komu sína til landsins.
Þar með var ljóst að Íslandsflug var komið á dagskrá þriggja stærstu flugfélaga Bandaríkjanna. Hin tvö, Delta og United Airlines, voru þá bæði komin með reynslu af flugi hingað til lands.

Útgerðin í Dallas gekk þó ekki upp hjá Icelandair og Wow Air og bæði tóku flugið þangað af dagskrá strax um haustið. American Airlines mætti hins vegar aftur sumarið eftir en hefur ennþá ekki tekið upp þráðinn eftir heimsfaraldur. Reyndar hafði félagið boðað að Íslandsflugið yrði færst frá Dallas til Philadelphia sumarið 2020 en kórónuveirufaraldurinn kom í veg fyrir að þau áform yrðu að veruleika.
Og það stefnir í að biðin eftir því að American Airlines snúi aftur til Íslands verði lengri. Félagið kynnti nefnilega í gær að evrópsku borgirnar Kaupmannahöfn, Nice og Napolí myndu bætast við leiðakerfið næsta sumar. Keflavíkurflugvöllur komst því ekki á blað og talsmaður American Airlines segir í svari til Túrista að ekkert sé að frétta á þessari stundu af fleiri nýjum áfangastöðum.