„Komugjald væri ekki góð leið“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, er ekki fylgjandi komugjöldum á flugfarþega. Hann telur heppilegra að nota gjaldtöku til álagsstýringar á ferðamannastöðum.

Í komusal Keflavíkurflugvallar á mánudag MYND: ÓJ

Ríkisútvarpið segir á vef sínum að Birgir Jónsson, forstjóri Play-flugfélagsins, sé tilbúinn að skoða upptöku komugjalds á ferðamenn. Orðrétt er haft eftir Birgi:  „Ef að ferðamenn væru að borga einhvers konar komugjald sem að færi í að búa til innviði fyrir ferðamannaiðnaðinn í landinu, ég held að það væri eitthvað sem ætti að skoða. Því við erum með mjög eftirsótta auðlind og við ættum alls ekki að gefa hana.“

Í sömu frétt er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að hann vilji frekar að horft sé til gæða fremur en fjölda.

Túristi leitaði til Boga Nils Bogasonar um nánari skýringar. Er hann að tala um aðgangsstýringu, einskonar náttúrupassa, eða vill hann sjá komugjald eins og keppinauturinn?

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair – MYND: Icelandair

„Flug og ferðaþjónusta skila í dag gríðarlegum skatttekjum til í ríkissjóðs sem hægt væri að nýta mun betur til uppbyggingar innviða fyrir ferðaþjónustu en gert er í dag og nýverið var tekin ákvörðun um að leggja á varaflugvallargjald,“ segir Bogi Nils í svari við fyrirspurn Túrista – og bætir við:

„Ef horfa á til frekari gjaldtöku á flug og ferðaþjónustu, þá tel ég að komugjald væri ekki góð leið. Miklu frekar ætti að horfa til þess að nýta gjaldtökuna til álagstýringar á sama tíma og hún skilaði fjármunum sem myndi nýtast til uppbyggingar innviða fyrir ferðaþjónustuna.“

Ferðafólk kveður landið á Keflavíkurflugvelli – MYND: ÓJ

Bogi Nils nefnir sem dæmi:

„Ferðamaður sem færi að skoða Gullfoss og Geysi um miðjan dag í júlí ætti að borga meira en ferðamaður sem færi eingöngu um Austfirði. Að sjálfsögðu myndi það sama gilda um ferðamenn sem koma með skipum og flugi. Með þessu móti væri hægt að stýra álaginu á helstu náttúruperlur betur en áður, sem er algjörlega nauðsynlegt til þess að ferðaþjónustan, og þar með íslenska hagkerfið, geti haldið áfram að vaxa og dafna. Komugjöld í Keflavík hjálpa ekkert til við slíka stýringu.“

Ferðamenn við Strokk

Ferðamenn bíða þess að Strokkur gjósi – MYND: ÓJ