Leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Noregi styður túristaskatt til að mæta útgjöldum vegna þeirra

Það þykja nokkur tíðindi að Erna Solberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs og leiðtogi Hægriflokksins, vilji að sveitarfélög fái heimild til að leggja sérstakt gjald á ferðamenn til að mæta kostnaði vegna þeirra. Samtök atvinnulífsins eru mótfallin gistináttagjaldi sem leiddi til að enn dýrara yrði að heimsækja Noreg.

MYND: Visit Norway

Þegar hljóð og mynd fara saman í norskum stjórnmálum er forysta Hægriflokksins og samtaka atvinnurekenda í landinu, NHO, einhuga um álögur á atvinnulífið. En þrýstingur frá félagsmönnum í sveitarfélögum víða um land hefur knúið fram breytta afstöðu forystu Hægriflokksins gagnvart gjaldtöku af ferðamönnum. Ríkisstjórn Verkamannaflokksins hefur þegar lýst fyrirætlunum um að kynna síðar á árinu tillögur sínar um túristaskatt.

Á landsfundi Hægriflokksins í vor var samþykkt ályktun um að þau sveitarfélög sem svo kysu fengju heimild til að krefja ferðamenn um sérstakt heimsóknargjald. Fyrir þingkosningarnar hafði leiðtogi flokksins, Erna Solberg, þá forsætisráðherra, lýst sig andsnúna slíkri gjaldtöku. Nú hefur hún skipt um skoðun og í viðtali við TV2 lýsti hún stuðningi við túristaskatt en segir þó: „Gjaldtakan þarf að vera í samræmi við almenna löggjöf og því verður að finna skynsamlegar leiðir.“

Erna Solberg, formaður Hægriflokksins – MYND: Norska stórþingið

Erna Solberg sagði í sjónvarpsviðtalinu að allir hljóti að geta fallist á einhvers konar notendagjöld, að ferðamenn greiddu fyrir afnot af salernum og hreinsun á vinsælum viðkomustöðum. Talsmenn ferðaþjónustu í samtökum atvinnurekenda lýsa hinsvegar miklum efasemdum, segja að gjaldtaka af ferðamönnum væri óskynsamleg. Sérstaklega myndi hótelskattur eða gistináttagjald gera Noreg enn dýrara land að heimsækja. Ekki væri þar á bætandi.