Lítið að marka markaðshlutdeildina og vísbending um oftalningu á fjölda ferðamanna

Þó hlutdeild Play á íslenska markaðnum sé mikil miðað við umsvif félagsins þá eru hún mjög ólíklega 41 prósent eins og félagið gaf nýverið út.

Farþegar á leið í flug með Play. Mynd: AIA

Í byrjun hvers mánaðar birta Icelandair og Play upplýsingar um fjölda farþega í mánuðinum á undan. Þar er farþegahópnum skipt í þrennt og þá sést meðal annars hversu margir farþegar hófu ferðalagið á Íslandi. Eins og gefur að skilja eru ekki bara Íslendingar í þeim hópi enda eru um 70 þúsund erlendir ríkisborgarar með skráða búsetu á Íslandi eða um 18 prósent af íbúafjöldanum.

Hver farþegi hjá flugfélögunum er í raun tvítalinn, bæði við brottför og aftur við komu. Það þarf því að deila Íslandshópnum í tvennt til að komast nærri fjölda einstaklinga.

Ferðamálastofa stendur svo fyrir eigin talningu við vopnaleitina í Leifsstöð en þar eru farþegarnir bara taldir á leiðinni út, ekki við heimkomu. Þessi talning byggir á vegabréfum farþeganna og því flokkast útlendingarnir, sem búa á Íslandi, sem erlendir brottfararfarþegar hjá Ferðamálastofu ef þeir eru með erlent vegabréf.

Þessir útlendingar tilheyra hins vegar heimamarkaðnum hjá flugfélögunum eins og fyrr segir.

Þrátt fyrir þessa þekktu annmarka þá gaf Play það nýverið út að 41 prósent þeirra Íslendinga sem flugu út í heim á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, hefði valið Play. Frá þessu var meðal annars greint í tilkynningu til Kauphallarinnar í tengslum við síðasta uppgjör í lok júlí.

Útlendingar sem Íslendingar í hluta jöfnunnar

Það er þó ekki bara þessir vankantar sem vekja athygli við útreikninga Play heldur líka hið háa hlutfall, 41 prósent. Túristi fær til að mynda aðeins út 34 prósent með því að taka alla farþegar Play á heimamarkaðnum, líka útlendingana, og deila þeim með talningu Ferðamálastofu á íslenskum brottfararfarþegum.

Spurður um útlistun á útreikningum Play þá bendir Birgir Olgeirsson, talsmaður flugfélagsins, á að félagið styðjist við fjölda brottfararfarþega frá heimamarkaðnum og þeir geti verið fleiri en komufarþegarnir. Nefnarinn í jöfnunni er svo talning Ferðamálastofu á íslenskum brottfararfarþegum.

Það liggur hins vegar fyrir að í teljaranum er fjöldi útlendinga sem skekkja dæmið verulega eins og áður hefur verið rakið.

Langt yfir 100 prósent

Í framhaldi af svari Play þá óskaði Túristi eftir upplýsingum frá Icelandair um hvort þar hefði líka verið ójafnvægi milli komu- og brottfararfarþega á heimamarkaðnum. Samkvæmt svari frá Icelandair var það raunin og hefði félagið beitt reikniaðferð Play þá hefði hlutdeildin verið 66 prósent í júní.

Íslensku flugfélögin tvö hefðu þar með sprengt 100 prósent skalann og þá er ekki einu sinni búið að taka með alla þá Íslendinga sem flugu til útlanda á vegum íslenskra ferðaskrifstofa eða með erlendum flugfélögum.

Oftaldir ferðamenn?

Þessar upplýsingar frá Play og Icelandair vekja upp þá spurningu hvort íslensku brottfararfarþegarnir á Keflavíkurflugvelli hafi vantaldir að undanförnu. Sérstaklega í júní þegar tölur Ferðamálastofu sýndu mikinn samdrátt í ferðalögum Íslendinga.

Getur verið að 10 þúsund færri Íslendingar hafi ferðast út í þeim mánuði en á sama tíma í fyrra? Þrátt fyrir stóraukið framboð á flugi og fyrrnefndar farþegatölur Icelandair og Play. Í ofan á lag sýna tölur Seðlabankans að Íslendingar eyddu meiru í útlöndum í júní en á sama tíma í fyrra. Kortafærslurnar voru líka fleiri en þá.

Ef það er raunin að íslensku farþegarnir hafa verið vantaldir þá má ljóst vera að þeir erlendu voru oftaldir en sú tala er einmitt notuð til að meta fjölda ferðamanna á landinu. Í júní hljóðaði hún upp á 233 þúsund manns en vera má að hún hafi átt að vera nokkru lægri.