Breskir flugumferðarstjórar neyddust til að stýra umferð með gömlu ósjálfvirku aðferðunum í gær þegar ítrekaðar bilanir urðu á tölvubúnaðinum sem jafnan er stuðst við. Heathrow-flugvöllur sendi farþegum skilaboð um að hafa samband við sitt flugfélag og leita upplýsinga um næstu mögulegu flugferð. Allt fór úr skorðum. Hætt var við eða aflýst mörg hundruð flugferðum frá flugvöllum Bretlands.
Flugfélög sem urðu fyrir miklum truflunum hafa þurft að skipuleggja flugáætlanir upp á nýtt, sameina ferðir og gera ýmsar breytingar. Mark Harper, samgönguráðherra Bretlands, sagði á BBC í morgun að það tæki flugfélögin margra daga að vinna úr þeirri flækju sem myndaðist í gær þegar tæknilegar bilanir herjuðu á flugumferðarstjórnarkerfi landsins. Ráðherrann sagði að embættismenn hefðu ekki trú á að bilanirnar mætti rekja til tölvuárása.