Refurinn litinn öðrum augum

Eftir stofnun Snæfellsjökulsþjóðgarðs 2001 voru refaveiðar innan hans úr sögunni. Þetta eina spendýr sem var á Íslandi fyrir landnám á þar friðland. Hákon Ásgeirsson, þjóðgarðsvörður, segir að afstaða til refsins í samfélaginu hafi breyst. Óvíða fái ferðamenn betra færi á að sjá villta refi í náttúrunni.

Yrðlingar í þjóðgarðinum MYND: Alin Rusu / Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull

Í reglugerð um þjóðgarðinn Snæfellsjökul frá 2001 segir í lýsingu á mörkum hans: „Á sunnanverðu Snæfellsnesi liggja mörk þjóðgarðsins í norður frá Gjafavík í austurjaðar Háahrauns í landi Dagverðarár.“

Þetta voru veiðislóðir Þórðar Halldórssonar frá Dagverðará, refaskyttu, málara, skálds og sagnamann, en nú njóta ferðamenns þess að sjá refi hér og þar í þjóðgarðinum, óhrædda og örugga með sig.

Þórður Halldórsson, refaskytta – Mynd af heimasíðu Hollvinasamtaka Þórðar Halldórssonar frá Dagverðará

Þórður lést í hárri elli 2003, tveimur árum eftir að gamlar veiðilendur hans á utanverðu Snæfellsnesi höfðu verið friðaðar með stofnun þjóðgarðsins. Einu spendýrin sem áfram mátti veiða innan þjóðgarðsins voru minkar. Stefnt var að því að útrýma honum.

Snæfellsjökulsþjóðgarður varð draumaland refsins.

Hákon Ásgeirsson, þjóðgarðsvörður – MYND: ÓJ

„Hér í þjóðgarðinum er mjög vel fylgst með fuglalífi – og refnum. Þrátt fyrir friðunina þá hefur ref ekki fjölgað í þjóðgarðinum. Hann heldur sig á óðölum sem eru fullsetin. Það sem hefur breyst er sýn fólks í samfélaginu á refinn. Fólk er mögulega sáttara en áður við friðunina af því að það sér að hann ógnar ekki mófuglum,“ segir Hákon Ásgeirsson, þjóðgarðsvörður, og bætir við: „Það er mjög sérstakt fyrir erlenda ferðamenn að sjá villta refi. Þeir fá tækifæri til að sjá refi hér í þjóðgarðinum af því að hann hefur verið friðaður lengi og er þess vegna ekki eins fælinn og víðast.“

Málverk eftir Þórð frá Dagverðará. Þarna lá Þórður á grenjum – Eigandi: ÓJ

Túristi birti nýverið ítarlegt viðtal um þjóðgarðinn og ferðaþjónustuna við Hákon Ásgeirsson, þjóðgarðsvörð.