Það er ekki síst í Colosseum og næsta nágrenni við hringleikahúsið fræga að rotturnar una sér vel við að éta matarleifar úr umbúðum sem ferðamenn skilja eftir sig. Þegar líður á daginn fyllast ruslatunnur og það flæðir upp úr þeim.
Hinir fornu Rómverjar og þrælar þeirra byggðu stórkostleg mannvirki og unnu stórvirki á sviði verkfræði en Ítölum nútímans gengur illa að skipuleggja og sinna sorphirðu í borginni. Frá því í apríl hafa sorphirðuyfirvöld í Róm sent 900 tonn af rusli í hverri viku 1,700 kílómetra leið til Amsterdam í Hollandi, þar sem það er endurunnið. Ástæðan er einfaldlega sú að borgin ræður ekki við stöðugt hækkandi ruslahauginn. Svona er nú komið í umhverfismálum Ítalíu.

Ruslatunna í Róm – MYND: ÓJ
Auðvitað er Ítölum nokkur vorkunn. Neysluvenjur fólks eru þannig í dag að erfitt er að ráða við úrganginn sem fylgir. Fólk borðar úti á götu og skilur eftir sig bréfumbúðir og plastglös hér og þar. Oft leynast matarleifar í umbúðunum og því fagna rotturnar. Það er stöðug veisla í gömlu þrælakistum hringleikahússins.
Borgaryfirvöld í Róm hétu því um síðustu helgi að ráðist yrði í átak gegn rottuganginum í og við Colosseum eftir að fólk hafði birt myndir af loðnu smádýrunum á samfélagsmiðlum. Yfirvöld lofa því að tryggt verði að fólk geti farið um svæðið án þess að eiga á hættu að rottur stökkvi í fangið á því. Lagnir verða lagfærðar og gildrur lagðar. Yfirvöld viðurkenna sem sagt vandann en segja að þungur straumur ferðafólks í sumar og óvenjulegir hitar hafi skapað rottunum kjöraðstæður.