Sameiginleg stefna í loftslagsmálum á höfuðborgarsvæðinu

Borgarstjóri og bæjarstjórar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu ásamt framkvæmdastjóra SSH hafa undirritað formlega loftlagsstefnu höfuðborgarsvæðisins. Sveitarfélögin vilja þannig leggja sitt að mörkum með innleiðingu markvissra aðgerða sem stuðla að kolefnishlutleysi höfuðborgarsvæðisins.

Rafskútur, bílar og fólk á Laugavegi MYND: ÓJ

Með stefnumótuninni lýsa sveitarfélögin yfir þeim vilja sínum að höfuðborgarsvæðið verði
kolefnishlutlaust árið 2035 – að þá verði reiknuð heildarlosun gróðurhúsalofttegunda ekki meiri en
sem nemur reiknaðri bindingu kolefnis, eins og segir í fréttatilkynningu.

Stefnt er að því að fá yfirlit aðgerða í vegasamgöngum, siglingum, staðbundinni orkunotkun, iðnaði, efnanotkun, úrgangsmálum og landnotkun sem eru líklegar til að skila árangri í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Frá undirritun. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur, Þorbjörg Gísladóttir sveitarstjóri Kjósarhrepps, Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar, Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogsbæjar, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar og Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hafa undirritað samkomulag við umhverfis-, orku- og auðlindaráðuneytið í þeim tilgangi að fylgja loftslagsstefnunni eftir, m.a. með ráðningu ráðgjafa til þess að aðstoða sveitarfélögin við að móta aðgerðir. Þá verður metin að nýju á þessu ári losun gróðurhúsalofttegunda og binding kolefnis á höfuðborgarsvæðinu. Það var síðast gert 2019. Er tilgangur nýrrar útektar að fylgjast með einstökum losunar- og bindingarþáttum og meta árangur aðgerða. Samið hefur verið við VSÓ um ráðgjöf í verkefninu.

Mikil losun fylgir skemmtiferðaskipum – Mynd: ÓJ

Loftslagsstefna höfuðborgarsvæðisins er áhersluverkefni Sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins 2020-
2024 og eru verkefnin fjármögnuð af ríki og sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.