Segir upp forstjórastöðunni hjá Finnair

finnair a
MYND: FINNAIR

Topi Manner tók við sem forstjóri Finnair í byrjun árs 2019 og hefur síðan þá stýrt finnska flugfélaginu í tveimur alvarlegum krísum. Fyrst í gegnum kórónuveirufaraldurinn og svo lokun rússnesks loftrýmis í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Með lokuninni kemst Finnair ekki lengur stystu leiðin til Austurlanda fjær yfir Rússland en rekstur flugfélagsins hefur í áraraðir byggt á tíðum ferðum frá Helsinki til Kína, Japan, S-Kóreu og fleiri landa í Asíu og Eyjaálfu. Ferðalagið þangað frá Helsinki er nefnilega styttra en frá mörgum öðrum evrópskum borgum og það hefur Finnair nýtt sér.

Núna þurfa þotur Finnair hins vegar að sneiða framhjá Rússlandi og þar með verður útgerðin dýrari og eins hefur dregið úr ferðalögum milli Asíu og Evrópu. Sá markaður er þó að lifna við.

Engu að síður hefur Manner nú ákveðið að snúa sér að fjarskiptageiranum því þann 1. mars á næsta ári sest hann í forstjórastólinn hjá finnska símafélaginu Elisa. Hann mun stýra Finnair þangað til ef nýr forstjóri verður ekki tekinn áður en að því kemur samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá Finnair.

Þrátt fyrir að flugferðir yfir Rússland séu ekki heimilar þá er rekstur Finnair réttum megin við núllið og nýverið hækkaði félagið afkomuspá sína fyrir árið. Stjórnendur félagsins eru því brattari í dag en þeir voru í byrjun árs.

Það er finnska ríkið sem er stærsti hluthafinn í Finnair með 58 prósent hlut og svo hátt hefur hlutfallið lengi verið. Á stuttum tímabili fyrir efnhagshrunið voru íslenskir fjárfestar reyndar meðal stærstu hluthafa.