Tilkynning um breytingar á skipulagi í framkvæmdastjórn Icelandair hefur verið send Kauphöll Íslands. Við þessar breytingar hverfur Jens Bjarnason úr starfi framkvæmdastjóra rekstrar. Hann mun þó starfa áfram hjá Icelandair sem ráðgjafi, samkvæmt fréttatilkynningu. Þar segir Bogi Nils Bogason, forstjóri, m.a. eftirfarandi um skipulagsbreytingarnar:
„Þessi einföldun á skipulagi er liður í því að bæta rekstrarárangur félagsins á sama tíma og við vinnum að metnaðarfullum áætlunum okkar. Með sameinuðu tekju-, þjónustu- og markaðssviði munum við styrkja áherslu okkar enn frekar á upplifun viðskiptavina í allri okkar starfsemi ásamt því að halda áfram að stuðla að sterkri tekjumyndun. Tómas mun taka við sameinuðu sviði en hann hefur leitt tekjusvið félagsins, uppbyggingu leiðakerfisins og viðskiptaþróun á undanförnum árum. Sylvía mun taka við rekstrarsviði félagsins og nýtir þar breiðan bakgrunn úr flugrekstri, stjórnun leiðakerfis og við uppbyggingu þjónustuupplifunar sem hún hefur leitt síðustu 18 mánuði.“

Sylvía Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs – MYND: Icelandair
Bogi Nils Bogason segir að reynsla Jens Bjarnasonar muni koma sér vel í verkefnum framundan, m.a. við að tryggja innleiðingu Airbus-flugvéla í flota Icelandair á næstu árum. Í júlíbyrjun var greint frá því að Icelandair og evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hefðu undirritað samning um kaup á þrettán A321XLR flugvélum og kauprétt á tólf til viðbótar.