Teide-þjóðgarðinum á Tenerife lokað vegna hættu af gróðureldum

Öllum leiðum að Teide-þjóðgarðinum á Tenerife hefur verið lokað vegna gróðurelda sem geisa á eynni. Þegar hefur gróður á um 26 ferkílometrum lands orðið eldum að bráð. Hvorki verður hægt að komast í þjóðgarðinn úr norðri eða suðri. Ferðamálaráð Tenerife segir að gestum á öllum helstu ferðamannastöðum við strandlengjuna stafi ekki hætta af eldunum.

Úr Teide-þjóðgarðinum MYND: ÓJ

Þessum lokunaraðgerðum er ætlað að auðvelda slökkvistarf í grennd við þjóðgarðinn. Um 250 slökkviliðsmenn berjast við eldana og notaðar eru 15 þyrlur og flugvélar.

Gróðureldarnir hafa mest áhrif á fjalllendi Tenerife, sérstaklega efri hluta Arafo, Candelaria, La Victoria de Acentejo, Santa Úrsula, La Orotava og El Rosario. Hefur fólk verið flutt heiman frá sér á þessum slóðum vegna hættu sem stafar af eldunum. Hluti þessa fólks er í leiguíbúðum og orlofshúsum. Íbúum bæjarins La Esperanza í El Rosario hefur verið fyrirskipað að halda sig innandyra til að forðast reyk og öskufok. Þá hefur fólki sem býr nálægt afmörkuðu hættusvæði verið ráðlagt að vera ekki mikið úti við og gæta þess að hafa dyr og glugga lokaða. Þeim sem eiga við öndunarerfiðleika að etja er ráðlagt að bera andlitsgrímur. 

Gróður og klettar í Teide-þjóðgarðinum – MYND: ÓJ

Í tilkynningu frá Ferðamálaráði Tenerife gengur allt sinn vanagang í fjölmennustu bæjum og á fjölsóttustu ferðamannastöðum við strandlengjuna. Þetta á við um hótel, gististaði, baðstaði og aðra ferðamannastaði í Arona, Adeje, Santiago del Teide, Guía de Isora, San Miguel de Abona, Puerto de La Cruz og á höfuðborgarsvæði Santa Cruz de Tenerife og þar með La Laguna. Baráttan við gróðureldana í fjallendinu hefur ekki áhrif á fólk á þessum stöðum, segja yfirvöldin.

Hægt er að fá þessar upplýsingar staðfestar með því að fylgjast með efni frá vefmyndavélum á helstu ferðamannastöðum Tenerife: 

Playa de las Vistas, Los Christianos, Arona: Webcams of Tenerife: Live images of beaches, ports and more (webtenerife.com)

Playa de Troya, Las Américas, Adeje: Webcams of Tenerife: Live images of beaches, ports and more (webtenerife.com)

Lago Martíanez, Puerto de la Cruz: Webcams of Tenerife: Live images of beaches, ports and more (webtenerife.com)

Santa Cruz de Tenerife: Webcams of Tenerife: Live images of beaches, ports and more (webtenerife.com)

Engar truflanir hafa orðið á starfsemi flugvalla eða hafna á Tenerife vegna gróðureldanna. Þá eru helstu akstursleiðir hringinn í kringum eyna opnar – að frátöldum þessum áður tilgreindu lokunum vega á hálendinu.

Ferðamálaráð Tenerife leggur áherslu á að upplýsa um að öryggi allra gesta sé tryggt og viðbragðsáætlanir séu í gildi. Enginn hafi hlotið skaða af gróðureldunum.

Lokun vega sem liggja að Teide-þjóðgarðinum er hinsvegar áfall fyrir ferðaþjónustu á Tenerife. Svæðið er mjög mikið sótt af göngufólki og náttúruunnendum.