Þúsundir snúa aftur heim

Slökkvistarfi hefur miðað vel á Tenerife þar sem eldar hafa logað í gróðri í meira en viku. Þúsundum íbúa hefur verið leyft að snúa aftur til síns heima.

Buenavista del Norte MYND: ÓJ

Það voru meira en átta þúsund íbúar í þorpum og sveitum á sólskinseynni Tenerife sem urðu að yfirgefa heimili sín vegna gróðueldanna sem kviknuðu 15. ágúst. Nú segja yfirvöld að tekist hafi að ná tökum á ástandinu og því er fólki talið óhætt að snúa til síns heima. Enn halda þó um þrjú þúsund íbúanna sig fjarri.

Leiðum að Teide-þjóðgarðinum hafði m.a. verið lokað vegna elda sem loguðu í grenndinni – á um 150 ferkílómetra skógi vöxnu svæði. Lögðu yfirvöld kapp á að veita ferðafólki sem gleggstar upplýsingar og draga þannig úr hræðslu vegna ástandsins.

Í Teide-þjóðgarðinum – MYND: ÓJ

Það er aðeins í grennd við Guimar sem enn er barist við elda og á nokkrum stöðum er viðvarandi hætta á að þeir blossi upp að nýju. Það hefur tekist að koma í veg fyrir að eldar kvikni innan Teide-þjóðgarðsins.

Á nokkrum stöðum í Evrópu er enn barist við elda í gróðri. Í Grikklandi, á Ítalíu og í Portúgal hefur verið mjög heitt að undanförnu, þurrt og vindasamt, og eldar hafa breiðst út. Ástandið hefur verið verst í Grikklandi, þar sem hundruð elda hafa kviknað í vikunni og 18 manns látið lífið. Enn er barist við elda nærri höfuðborginni Aþenu.

Þá hafa eldar geisað á 650 ferkílómetra svæði á Spáni en í fyrrasumar brann miklu stærra svæði þar í landi.

Vísindamenn eru almennt þeirrar skoðunar að eldarnir, sem þó hafa sumir verið kveiktir viljandi, verði verði stöðugt hamslausari og erfiðari viðfangs vegna loftslagsbreytinga.

Horft niður af skógi vöxnu hálendinu í átt að Adeje. Hafið endurkastar sólarglampa í gegnum skýin – MYND: ÓJ