Þær eru háar tölurnar sem nefndar eru í skýrslunni um efnahagslega stöðu þýskrar ferðaþjónustu árið 2023.
Gert er ráð fyrir að ferðaþjónustan skili þjóðarbúinu til um 355 milljarða evra í tekjur, sem er 95 prósent af því sem hún skilaði á metárinu 2019. Ferðaþjónustan leggur til 9,3 prósent þjóðartekna.
Alþjóða ferðamálaráðið gerir ráð fyrir að ferðaþjónustan í Þýskalandi skapi um 5,6 milljónir starfa, um 168 þúsund ný störf bætist við á árinu og að greinin hafi þá endurheimt að mestu þau störf sem glötuðust í heimsfaraldrinum.

Brandenborgarhliðið – MYND: Visit Berlin
Mikill vöxtur var í þýskri ferðaþjónustu á síðasta ári. Þá voru endurheimt 555 þúsund störf sem glatast höfðu í heimsfaraldrinum og segja má að ferðaþjónustan hafi þá náð sér til hálfs. Erlendir ferðamenn streymdu til Þýskalands og tekjur af þeim jukust um 61 prósent.
Á þessu ári hafa allar línur legið upp á við.
„Því er spáð að Þýskaland haldi stöðu sinni sem fimmta vinsælasta ferðamannaland Evrópu allan þennan áratug, sem sýnir viðvarandi aðdráttarafl landsins,“ segir Julia Simpson, forseti og framkvæmdastjóri Alþjóða ferðamálaráðsins.
Löndin sem eru ofan við Þýskaland á þeim lista eru Frakkland, Spánn, Ítalía og Tyrkland.
Alþjóða ferðamálaráðið gerir ráð fyrir áframhaldandi vexti ferðaþjónustu í Þýskalandi á næstu árum. Hún muni í lok áratugarins leggja til 10,3 prósent þjóðartekna og veita 6,1 milljón manna atvinnu í landinu.