Viðbúið að losunargjöld muni eingöngu dempa vöxtinn

Það verður dýrara að fljúga í framtíðinni að mati greinenda því opinberar álögur á flug eru að aukast. Sérstaklega í Evrópu.

Farþegar og flugvélar á Charles de Gaulle í París. MYND: ÓJ

Gera má ráð fyrir að kostnaður flugfélaga við að draga úr kolefnislosun muni valda töluverðum hækkunum á farmiðaverði frá og með árinu 2026. Það mun þó ekki valda samdrætti í flugumferð heldur aðeins draga úr vextinum að mati sérfræðinga ráðgjafafyrirtækisins Bain&Company.

Þeir telja að áhrifin verði ólík eftir heimshlutum og mest í flugi milli Evrópu og Norður-Ameríku sem er einmitt sá markaður sem Icelandair og Play byggja sinn rekstur á að miklu leyti.

Gangi spá ráðgjafafyrirtækisins eftir þá verður eftirspurn eftir flugi yfir Norður-Atlantshafið 17 prósent meiri árið 2030 en árið 2019. Ef losunargjöld myndu ekki valda fyrrnefndum hækkunum á farmiðaverði þá er viðbúið að markaðurinn myndi stækka ennþá meira eða um 22 prósent. Opinberar álögur á mengun frá flugi dempa því aðeins vöxtinn að mati Bain&Company

Þessi spá byggir á auknum hagvexti næstu ár en verði hann hann lítill eða enginn þá gæti svo farið að markaðurinn fyrir flug yfir Norður-Atlantshafið muni ekkert stækka eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.

Spá Bain&Company um eftirspurn eftir flugi árið 2030 í samanburði við 2019.

Reglur Evrópusambandsins um losun frá flugi verða hertar tölurvert í lok þessa árs en íslensk stjórnvöld hafa fengið vilyrði fyrir aðlögun að breytingunni til ársins 2027 vegna fjarlægðar landsins frá meginlandi Evrópu. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvernig að þessu verður staðið en ætlunin er að úthluta Íslandi sérstökum losunarheimildum sem stjórnvöld geta svo komið áfram til þeirra flugfélaga sem fljúga héðan, bæði íslenskum og erlendum.

Óvíst hvað gerist árið 2027

Ráðmenn í Evrópusambandinu hafa sett sér það markmið að fá stjórnvöld vestanhafs og í Kína með sér í lið um að takmarka losun frá flugi milli heimsálfa frá og með árinu 2027. Ef það gengur eftir þurfa evrópsk flugfélög ekki bara að nýta losunarkvóta í flug innan Evrópu heldur líka fyrir flugferðir til annarra heimsálfa. Að sama skapi yrðu erlend flugfélög að kaupa sér kvóta til að geta flogið til og frá evrópskum flugvöllum. 

Þessi áform voru reyndar uppi fyrir rúmum áratug síðan þegar evrópska losunarkerfið var tekið upp. Þá vildu stjórnvöld í Washington og Peking ekki vera með en hvort breyting verði þar á kemur í ljós á næstu árum. Þá skýrist líka hvort Ísland fær áframhaldandi undanþágu frá evrópska kerfinu í ljósi legu landsins.