Það vakti mikla athygli þegar Vinfast var skráð á markað á Wall Street fyrr í þessum mánuði og taldist þann daginn verðmætasta bílaframleiðslufyrirtæki heims. Næstu daga féll þó verðið á þessum fáu bréfum sem voru til sölu. Í síðustu viku tóku þau að hækka að nýju og markaðsverðið er nú 160 milljarðar Bandaríkjadollara.
Eins og staðan er núna þá telst Vinfast verðmætara en Mercedes Benz, Volkswagen, Ford og General Motors. Vinfast sækir að Toytota en markaðsvirði þess er um 220 milljarðar. Tesla trónir á toppnum. Markaðsvirði Teslu er um 757 milljarðar dollara.
Vinfast er nánast í einkaeigu stofnandans Pham Nhat, ríkasta manns Víetnams. Hann á 99,7 prósent hlutabréfa í Vinfast en hefur hugmyndir um að setja stærri hlut á markað til að afla fjár til nýrra landvinninga. Tesla og gömlu bílafyrirtækin hafa enn miklu sterkari stöðu á mörkuðum með rafbíla.
Vinfast er efnilegur nýliði á harðnandi rafbílamarkaði, þar sem hægst hefur á eftirspurn og Tesla gerir allt hvað það getur til að verja yfirburði sína. Til samanburðar má nefna að Vinfast vonast til að selja 50 þúsund rafbíla á þessu ári á meðan Tesla ætlar að afhenda 1,8 milljónir rafbíla.
Meðal þess sem Vinfast hefur gert til að bæta möguleika sína á hörðum markaði er að treysta á umboðsmenn til að koma víetnamska bílnum á framfæri en fara ekki í fótspor Tesla sem byggir velgengni sína á beinu sambandi við kaupendur. Þá ætlar Vinfast að reisa verksmiðju í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum til að greiða götuna inn á stærsta markaðsvæði heimsins.

Vinfast-umboð í Kaliforníu – MYND: Vinfast