14 flugmenn sögðu upp hjá Play

Eftir uppsagnir gærdagsins eru 111 flugmenn hjá Play. MYND: AIA

Á fjórða tug flugmanna Play sótti um starf hjá Icelandair í byrjun árs og þá voru sjö þeirra ráðnir en hinir fóru á biðlista. Átján þeirra fengu svo tilboð í vikunni um að hefja störf hjá Icelandair í haust líkt og Túristi greindi frá.

Fjórtán þessara flugmanna þáðu boðið samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá Play. Þar með eru 111 flugmenn eftir hjá flugfélaginu.

„Það er alltaf vont að sjá á eftir góðum liðsmönnum en þó munu þessar breytingar ekki hafa nein afgerandi áhrif á rekstur eða flugáætlun félagsins. Þessum starfsmönnum er óskað velfarnaðar og þakkað fyrir góð störf og þeirra framlag til félagsins,“ segir í tilkynningu frá Play.

Túristi greindi frá því í gær að flugmönnum Play hafi verið boðin veruleg launahækkun á fimmtudagskvöld þegar fyrir lá að hluti þeirra var með atvinnutilboð frá Icelandair en þar hafa laun flugmanna verið töluvert hærri.

Í tilkynningu Play segir að vegna skorts á flugmönnum víða um heim hafi Play endurskoðað ýmis atriði í launum og starfskjörum flugmanna félagsins.

„Samsetning launa og kjör flugfólks eru mun flóknari og breytilegri en flestra annarra starfstétta svo erfitt er að leggja fram einfalda skýringu á þessari breytingu kjara enda snýst málið einnig um ýmis önnur atriði. Í fréttum síðustu daga hafa þó verið nefnd dæmi um áhrif þessarar breytinga á kostnaðargrunn félagsins sem eru víðs fjarri raunveruleikanum þó vissulega sé um umtalsverða hækkun að ræða fyrir þessa starfsmenn sem um ræðir. Áhrifin á reksturinn munu koma í ljós í uppgjörum félagsins sem kynnt eru almenningi en þó er hægt að segja að umrædd breyting hefur óveruleg áhrif á einingakostnað félagsins,“ segir í tilkynningu.

Þar kemur jafnframt fram að aðstandendur flugfélagsins séu stoltir af því að hafa skapað um 550 ný störf á íslenskum vinnumarkaði á ríflega tveimur árum. „Play ætlar, hér eftir sem hingað til, að bjóða öllu sínu starfsfólki samkeppnishæf kjör sem tryggja að félagið muni hafa hæft og gott fólk sem vill taka þátt í því að byggja upp frábært fyrirtæki sem við getum öll verið stolt af.“