Bretar eru hægt og bítandi að taka við sér í orkuskiptum í bílasamgöngum þó að ríkisstjórnin sé gagnrýnd fyrir að gera ekki nóg til að hraða þeim. Í ágúst seldust yfir 16 þúsund rafbílar í Bretlandi, sem svaraði til nærri 21 prósents nýskráninga. Enn eru Bretar þó varfærnir og taka tvinnbíla og bensínbíla fram yfir rafbíla.
Nýir tvinnbílar voru tæplega 29 prósent af heildarsölu nýrra bíla í ágúst. Að viðbættum rafbílunum þá er hlutfall glænýrra vistvænna bíla í Bretlandi komið í tæpan helming. Enn eiga bensínbílar vinninginn þegar litið er á söluhlutföll í Bretlandi. 44 prósent nýskráðra bíla ganga fyrir bensíni og rúm sex prósent eru dísilbílar. Þetta er þó lægsta hlutfall nýskráðra jarðefnaeldsneytisbíla á Bretlandi til þessa.
Rafbílum af ýmsum gerðum fjölgar hægt og bítandi í Bretlandi. Kippur varð í sölu á rafknúnum sendla- og flutningabílum. Um átta prósent nýskráninga í þeim flokki voru rafknúin farartæki.
Aukin sala rafbíla í Bretlandi kemur nokkuð á óvart í ljósi efnahagsástands í landinu, þar sem verðhækkanir hafa skert afkomu fólks. En þeir sem mögulega geta reyna að eignast rafbíl og bæta þannig afkomu sína til lengri tíma litið – og samviskuna vegna umhverfisáhrifa af akstrinum.

Stjórnvöld í Bretlandi draga þó enn lappirnar í því að gera fleirum fært að eignast rafbíl. Fyrir tveimur árum voru aðgerðir boðaðar til að lækka verð á rafbílum en ekki hefur enn orðið af þeim. Þykir mörgum það skjóta skökku við að íhaldsstjórnin stefni að því að bílar knúnir jarðefnaeldsneyti hverfi af götunum 2030 án þess að gera hið augljósa til að hraða orkuskiptunum: Lækka gjöld á rafbílum.