Bretar lofa 270 milljörðum króna í loftslagssjóð

Rishi Sunak við komuna til Indlands á fund G20 ríkjanna. Mynd: Alice Hodgson / No 10 Downing Street

Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands tilkynnti á fundi leiðtoga G20 ríkjanna í morgun að Bretar ætluðu að legga 2 milljarða bandaríkjadollara í loftslagssjóð Sameinuðu þjóðanna, Green Climate Fund. Upphæðin jafngildir um 270 milljörðum króna og verður stærsta einstaka fjárframlag breskra stjórnvalda til baráttunnar við loftslagsvandann að því segir á vef breska stjórnarráðsins.

Þar er jafnframt fullyrt að Bretar hafi náð mestum árangri allra G7 ríkjanna í að draga úr losun.

Megintilgangur loftslagssjóðs SÞ er að styðja fátækari ríki heims við að draga úr mengun, nýta endurvinnanlega orku og aðlaga sig að afleiðingum loftslagsbreytinga. Sjóðurinn var stofnaður á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í Mexíkó árið 2010.

Bretar eru ekki þeir einu sem hafa skuldbundið sig til að leggja meira fé í loftslagssjóðinn því ráðamenn í S-Kóreu og Danmörku gerðu slíkt hið sama í síðustu viku. Í báðum tilvikum er um að ræða tvöfalt hærra framlag en áður.