Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hefur til skoðunar að hætta framleiðslu á VW Polo í Evrópu í lok þessa áratugar. Hækkandi losunargjöld á framleiðslu bensín og díselbíla í álfunni eru megin skýringin samkvæmt frétt Financial Times. Heimildir blaðsins herma að framleiðslu Polo verði mögulega hætt alfarið á sama tíma.
VW Polo kom á markað árið 1975 og gert er ráð fyrir að framleiða núverandi módel af bílnum í þrjú ár til viðbótar.
Financial Times segir evrópska bílaframleiðendur í vanda með að láta framleiðslu á ódýrum bílum standa undir sér í Evrópu vegna hækkandi losunargjalda. Áform Evrópusambandsins um að banna sölu á bílum með sprengihreyfla árið 2035 hafa líka orðið til þess að framleiðsla á rafbílum hefur verið sett í forgang í evrópskum bílaverksmiðjum þar á meðal hjá Volkswagen. Í takt við það er VW Polo ekki lengur fluttur inn víða í Evrópu.