Dýrara að lenda í Kaupmannahöfn

Kaupmannahafnarflugvöllur er á ný fjölfarnasta flughöfn Norðurlanda. MYND: CPH

Í dag borga flugfélög 170 danskar krónur fyrir hvern farþega sem lendir á Kaupmannahafnarflugvelli. Sú upphæð jafngildir 3.270 krónum en um áramótin fer gjaldið upp í 4.175 krónur. Hækkunin nemur 28 prósentum. Þetta er niðurstaða margra mánaða samningaviðræðna milli flugfélaga og stjórnenda flugvallarins um hversu mikið skal greiða fyrir afnot af flugbrautum og flugstöðvarbyggingum við dönsku höfuðborgina.

Í tilkynningu frá Kaupmannahafnarflugvelli segir að hækkunin sé í takt við þær breytingar sem orðið hafi á gjaldskrám evrópskra flugvalla í einkaeigu að undanförnu.

Þrjú flugfélög bjóða upp á reglulegt flug héðan til Kaupmannahafnar. Icelandair er þeirra stórtækast með allt að fjórar ferðir á dag en Play og SAS fljúga þessa leið daglega. SAS hyggst hins vegar draga töluvert úr ferðunum nú í vetur eins og Túristi greindi nýverið frá. Nú er að sjá hvort fyrrnefnd hækkun á farþegagjöldum verði til þess að farmiðaverðið fari upp á við.