Færri til Tenerife annan mánuðinn í röð

Farþegar bíða eftir flugi á flugvellinu á Tenerife. MYND: AENA

Framboð á ferðum til Tenerife tók kipp í byrjun síðasta árs þegar sóttvarnaraðgerðir vegna Covid-19 heyrðu sögunni til. Í júlí í fyrra var flogið 38 sinnum frá Keflavíkurflugvelli til flugvallarins á suðurhluta Tenerife og ferðirnar voru 40 í júlí sl.

Þetta er töluverð viðbót frá því sem var á árum áður. Í júlí 2018 var til að mynda flogið héðan 22 sinnum til Tenerife og aðeins 13 flugferðir voru í boði í júlí 2016 samkvæmt ferðagögnum Túrista. Í takt við tíðari ferðir þá hefur íslenskum ferðamönnum á spænsku eyjunni fjölgað hratt.

Núna eru hins vegar teikn á lofti um minni eftirspurn því annan mánuðinn í röð fækkar þeim farþegum sem koma til Tenerife með flugi frá Íslandi.

Í júlí voru þeir til að mynda 448 færri en í júlí í fyrra en samt sem áður hátt í 7 þúsund talsins eins og sjá má hér fyrir neðan.

Tölur spænskra flugmálayfirvalda ná því miður ekki lengra aftur í tímann en til ársins 2020 en svona upplýsingar eru ekki opinberar hér á landi.