Gistináttaskattur skili 4,2 milljörðum króna

Gistináttaskattur verður líka lagður á skemmtiferðaskip á næsta ári. MYND: ÓJ

Þegar kórónuveirufaraldurinn hófst var gistináttaskattur lagður af tímabundið. Formenn stjórnarflokkanna gáfu það hins vegar út í sumar að skatturinn yrði tekinn upp að nýju á næsta ári. Jafnframt var boðuð aukin gjaldtaka af skemmtiferðaskipum.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti nú í morgun fjárlagafrumvarp næsta árs og þar er staðfest að gistináttaskattur komi til framkvæmda á ný um áramót. Áætlað er að hann skili að óbreyttu 1,5 milljarði króna á komandi ári.

Það verða þó ekki aðeins gististaðir í landi sem verða rukkaðir um skattinn heldur líka útgerðir skemmtiferðaskipa að því fram kemur í frumvarpi fjármálaráðherra. Þar segir einnig að til skoðunar séu nýjar útfærslur á gistináttaskattinum sem eiga að leiða til þess að tekjur ríkissjóðs af honum hækki um 2,7 milljarða á næsta ári og nemi þá í heildina 4,2 milljörðum.

Eins og Túristi hefur farið yfir þá er íslenski gistináttaskatturinn öðruvísi en tíðkast til að mynda á meginlandi Evrópu.