Hætta að nota leður

Nú verður ekki lengur í boði leðurhulstur merkt Apple heldur ný útgáfa sem að mestu inniheldur endurunnin efni. MYND: APPLE

Apple kynnti í dag nýjungar úr smiðju fyrirtækisins og af því tilefni var tilkynnt að hér eftir yrði ekki notað dýraskinn í vörum félagsins. Notkun plastumbúða á svo að heyra sögunni til árið 2025. Með þessu vill Apple minnka kolefnisspor sitt frá því sem nú er.

Í takt við þessar áherslur kynnti Apple fyrstu kolefnishlutlausu vöruna sína, Apple Watch 9. Í samantekt CNN segir að Apple hafi fengið framleiðsluna á úrinu vottaða og geti því staðið við stóru orðin um að kolefnishlutleysi vörunnar.

Eins og búist hafði verið við var hulunni svipta af nýjustu útgáfu Iphone símans og mun ódýrasta gerðin af honum kosta 799 dollara eða 107 þúsund krónur á gengi dagsins.