Hafa ekki skoðun á mikilli fækkun tengifarþega

Lengi hefur verið unnið að því að styrkja Keflavíkurflugvöll sem skiptistöð. Óhætt er að segja að farþegatölur ársins endurspegli ekki þessar áherslur.

Það getur verið þröngt í suðurbyggingu Keflavíkurflugvallar þar sem farþegar á leið til Norður-Ameríku safnast saman. MYND: ÓJ

Á Keflavíkurflugvelli er farþegahópnum skipt í þrennt og það sem af er ári hafa komu- og brottfararfarþegarnir verið álíka margir og metárið 2018. Samdrátturinn nemur aðeins fimm prósentum. Það vantar hins vegar mikið upp á þegar kemur að þriðja hópnum, farþegunum sem millilenda hér á leið sinni yfir Norður-Atlantshafið.

Fyrstu átta mánuði ársins voru þessir tengifarþegar 1,4 milljónir talsins en þeir voru tvöfalt fleiri á sama tíma árið 2018 eða 2,7 milljónir.

Forsvarsfólk Isavia hefur lengi rætt mikilvægi þess að styrkja Keflavíkurflugvöll sem tengimiðstöð og í síðustu ársskýrslu skrifaði stjórnarformaður fyrirtækisins, Kristján Þór Júlíusson, að framtíðarsýn Isavia byggi á því að tengja heiminn í gegnum Ísland.

Tengifarþegunum hefur hins vegar fækkað um helming og spurður út í þessa þróun þá segir Guðjón Helgason, talsmaður Isavia, að það séu flugfélögin sem stýri framboði til og frá Íslandi og yfir hafið með söluáherslum sínum. „Keflavíkurflugvöllur hefur hvorki skoðun á því hvernig flugfélögin stýra sínu framboði né ástæðunum fyrir því,“ bætir Guðjón við.

Það eru Icelandair og Play sem nýta Keflavíkurflugvöll sem skiptistöð og í dag er hlutfall tengifarþega hjá Icelandair mun lægra en það var á árunum fyrir heimsfaraldur. Á öðrum fjórðungi ársins var hlutfallið 43 prósent en 56 prósent á sama tíma árið 2018.

Það má hins vegar gera má ráð fyrir að íslensku flugfélögin þurfi á fleiri þess tengifarþegum að halda í vetur enda verður framboðið álíka og það var veturinn 2018 til 2019.

Óstundvísi í sumar

Fyrir heimsfaraldur var farið að örla á umræðu um versnandi aðstöðu á Keflavíkurflugvelli fyrir tengifarþega. Pétur J. Eiríksson, fyrrum framkvæmdastjóri hjá Icelandair, hélt því til að mynda fram að Flugstöð Leifs Eiríkssonar væri ekki lengur besta skiptistöð í Evrópu heldur sú versta. Vísaði hann meðal annars til þess að farþegar væru í auknum mæli verið fluttir í rútum á milli flugstöðvar og flugvéla.

Nú í sumar hefur stundvísin á Keflavíkurflugvelli líka verið töluvert verri en yfirlýst markmið hljóða upp á. Í sumar seinkaði um það bil þriðju hverri brottför frá landinu á meðan áætlunin á flugvöllunum í Ósló og Dublin stóðst í 8 af hverjum 10 tilvikum.