Hagstofan leiðréttir losunartölur

Í gær var birt frétt frá Hagstofu Íslands um aukna losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Þar var fullyrt að losun hefði aukist um 12 prósent á fyrri helmingi ársins, miðað við sama tíma í fyrra, en hið rétta er að losunin jókst um 7 prósent.

Ferðafólk situr við borð. Bílar í kring
Ferðafólk og bílar við Seljalandsfoss í sumar MYND: ÓJ

Í upprunalegri útgáfu reiknaði Hagstofan ranglega samanlagða losun íslenska hagkerfisins. Töluverður munur er á því hvort losun hafi aukist um 12 prósent eða um 7 prósent, sem er hið rétta. Túristi birti frétt Hagstofunnar en hefur fjarlægt hana af vefnum þar sem hún er í meginatriðum röng.

Í nýrri og endurskoðaðri frétt Hagstofunnar segir:

„Losun gróðurhúsalofts frá hagkerfi Íslands var 3.219 kílótonn á fyrri helmingi ársins 2023 sem er 7,1% aukning frá því í fyrra. Á fyrsta ársfjórðungi var aukningin 15,1% frá fyrra ári en á öðrum árfjórðungi er losunin óbreytt á milli ára. Aukningin stafaði af aukinni losun frá iðnaði og flugrekstri. Frá iðnaði jókst losun um 95 kílótonn á fyrsta ársfjórðungi. Frá flugrekstri jókst losunin um 105 kílótonn á sama ársfjórðungi.“

Eftir stendur að losun gróðurhúsalofttegunda er að aukast. Það gefur þó ekki glögga mynd af þróuninni að bera saman fyrri hluta þessa árs við sama tímabil í fyrra – þegar flugsamgöngur og ferðaþjónusta voru ekki komin í fullan gang eftir heimsfaraldur. Áhugavert verður að sjá tölurnar um losunina á síðari hluta þess árs, þar sem sjást áhrifin af þeim hraða vexti sem verið hefur í komum ferðamanna til landsins.