Loks ætla Feneyingar að rukka

Eftir að hafa ítrekað frestað því að innheimta gjald af daggestum í Feneyjum segjast borgaryfirvöld nú ætla að gera tilraun með það á 30 daga tímabili næsta sumar.

Feneyjar
Rólegur vordagur í Feneyjum MYND: ÓJ

Ef einhvers staðar má sannarlega tala um að troðningstúrismi einkenni borgarlandslagið á fallegum sumardegi þá er það í Feneyjum – og svo hefur verið um langa hríð. Borgin er einstök, fögur og seiðmögnuð – en mjög oft eru þar alltof margir gestir. Um þetta hefur verið rætt og ritað í áratugi.

Borgaryfirvöld í Feneyjum fengu ráðrúm í heimsfaraldrinum til að hugsa ráð sitt – og gerðu það. Ákveðið var að hefja gjaldtöku 16. janúar á þessu ári. Innheimta átti þrjár til sex evrur af þeim sem kæmu til borgarinnar og átti upphæðin að fara eftir því hver árstíðin væri. Allir sem vildu komast til Feneyja áttu að skrá sig fyrirfram. Ekki tókst að útfæra þetta í tæka tíð og gjaldtakan frestaðist, eins og Túristi greindi frá. Hinsvegar var frá því gengið að allir farþegar sem fljúga frá Marco Polo-flugvelli þurfa að greiða 2.50 evrur í  aukagjald við brottförina frá 1. apríl 2024. Væntanlega hafa flestir flugfarþeganna þá gist í Feneyjum og greitt 7 evru gistináttagjald fyrir hverja nótt.

Á þessu sumri fengu Feneyingar því að upplifa enn eitt sumarið með troðningi frá morgni til kvölds – eins og var fyrir heimsfaraldurinn. Íbúar Feneyja eru um 55 þúsund en til borgarinnar koma um 20 milljónir ferðamanna þó gistinætur séu aðeins 13 milljónir. Borgaryfirvöld vonast til að daggestum fækki þegar allir sem náð hafa 14 ára aldri þurfa að greiða 5 evru gjald á ótilgreindu 30 daga tímabili næsta sumar. Síðar verður ákveðið hvaða tímabil verður valið. Tillagan á nefnilega eftir að fá afgreiðslu í borgarráði.

Sjálfa tekin á Rialto-brúnni á svölum degi í mars – MYND: ÓJ