Matvælaverð áfram á niðurleið

Á heimsvísu þá lækkar nú verð á kjöti. MYND: KYLE MACKIE / UNSPLASH

Framboð á matvælum á heimsvísu er það mikið að verðlag hefur lækkað samkvæmt tölum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO. Vísitala stofnunarinnar lækkaði um 2,1 prósent í ágúst og hefur því fallið um 24 prósent frá því að hún náði hámarki í mars árið 2022. Frá þessu greinir TT fréttastofan.

Hrísgrjón og sykur skera sig þó frá. Verð á hrísgrjónum hækkaði um tíund í ágúst og hefur það ekki verið hærra í 15 ár. Skrifast staðan á útflutningstakmarkanir indverskra stjórnvalda til að tryggja nægar birgðir innanlands. Sykurverð er ennþá á uppleið og hefur það hækkað um rúm 34 prósent síðastliðið ár samkvæmt tölfræði FAO.

Verð á mjólkurafurðum lækkaði aftur á móti um 4 prósent í ágúst og kjötvörur um 3 prósent, meðal annars vegna minni eftirspurnar frá Kína.