Meirihlutinn telur ferðamenn of marga

Samkvæmt nýrri könnun Gallup fyrir Túrista telja rúm 58% landsmanna erlenda ferðamenn hafa verið of marga í sumar. Einkum er það eldra fólki sem þykir nóg um ferðamannafjöldann.

Ferðafólk reynir að njóta Gullfoss MYND: ÓJ

Túristi hefur á liðnum mánuðum fjallað ítarlega um troðningstúrisma víða um heim og heimsótt nokkra af fjölsóttustu ferðamannastöðum Evrópu: París, Mont Saint-Michel, Róm, Feneyjar, Pompei, Aþenu, Lissabon og Portó – en líka farið nokkrum sinnum á þá staði hér innanlands sem draga til sín stærstan hluta erlenda gesta: Þingvelli, Geysi og Gullfoss, Reynisfjöru, Snæfellsjökulsþjóðgarð, Jökulsárlón og Mývatn – að ógleymdum miðbæjum Reykjavíkur, Ísafjarðar, Húsavíkur og Seyðisfjarðar, svo nokkrir staðir séu nefndir. Þessar heimsóknir hafa allar staðfest að túrisminn blómstrar eftir Covid-19.

Það fer hinsvegar eftir viðhorfum hvers og eins, tilfinningalífi, næmni og smekk, hvort viðkomandi þyki of mannmargt á þeim slóðum sem hann fer um. Mikill manngrúi getur eyðilagt upplifun, sérstaklega ef um er að ræða troðning og hindranir að því sem hver og einn vill sjá og njóta. Hinsvegar skilja flestir að á stöðum með mikið aðdráttarafl er ólíklegt að þar megi njóta einsemdar og friðar.

Hvað finnst þér um fjölda erlendra ferðamanna á Íslandi í sumar?

Þannig spurði Gallup fyrir Túrista í könnun sem sem gerð var 18.-28. ágúst. Í úrtaki voru 1.697 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri. Þau sem svöruðu voru 849. Afstöðu tóku 796 eða 93,7%.

Af þeim telja 58% að ferðamennirnir hafa verið of margir en 40% segja fjöldann hafa verið hæfilegan. Tveir af hverjum 100 segja ferðamennina of fáa.

Af þeim sem sögðu ferðamennina hafa verið of marga hér á landi í sumar þá voru 21% á því að túristarnir í sumar hafi verið alltof margir en 37% fannst þeir heldur of margir.

Gult eða rautt spjald frá þeim eldri

Það kemur kannski ekki á óvart að eldra fólki ofbýður helst túristafjöldinn í landinu. Það man aðra tíma og skynjar glöggt þvílík gjörbreyting hefur orðið á, t.d. í þjóðgarðinum á Þingvöllum eða við Gullfoss. Á þessa staði liggur þungur straumur erlendra ferðamanna flesta daga yfir sumarið, sérstaklega þegar skemmtiferðaskip eru í höfn. Þá koma margar rútur með ferðamenn sem eiga stutta viðdvöl á þessum stöðum.

Þrír af hverjum fjórum sem komnir eru yfir 65 ára aldur telja ferðamennina of marga og tveir af hverjum fjórum sem eru á aldrinum 55 til 64 taka undir það. Aftur á móti er innan við helmingur fólks á aldrinum 18 til 34 á þessari skoðun eins og sjá má hér fyrir neðan.

Konum yfir 55 ára aldri líst sérstaklega illa á hversu mikið ferðamönnum hefur fjölgað. Samkvæmt könnun Gallup telja 27% þeirra fjölda erlendra ferðamanna of mikinn og 49% heldur of mikinn. Samtals 76% þeirra setja m.ö.o. upp gult eða rautt spjald gagnvart túristafjöldanum.

Karlar á sama aldursbili hafa ekki alveg jafn miklar áhyggjur, ef marka má könnunina, en 68% þeirra telja þó fjöldann alltof eða heldur of mikinn. Þrír af hverjum fjórum yfir 65 ára aldri telja erlenda ferðamenn hafa verið of marga í sumar.

Lítill munur er á viðhorfi fólks eftir því hvar á landinu það býr.

Vísbending um mun neikvæðara viðhorf

Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur síðastliðinn áratug gert reglulegar rannsóknir á viðhorfi Íslendinga til ferðaþjónustu og fjölda ferðamanna. Í þessum könnunum er fólk spurt hvað því finnist um fjölda erlendra ferðamanna í sinni heimabyggð yfir sumarið. Í könnun Gallup fyrir Túrista var aftur á móti spurt um viðhorf til fjölda ferðamanna á landinu öllu.

Það má því gera ráð fyrir að svörin í könnun Rannsóknamiðstöð ferðaþjónustunnar litist af því hvort þátttakendur búi í nálægð við vinsæla áfangastaði eða ekki. Niðurstöðurnar þessara kannana hafa sýnt að hlutfall þeirra sem telur fjölda ferðamanna annað hvort alltof mikinn eða heldur of mikinn hefur verið miklu lægra en niðurstöður könnunar Túristi og Gallup sýna.

Árið 2019 sögðu til að mynda samanlegt 19% að fjöldinn hafi verið of mikill, 27% voru á þeirri skoðun árið 2017 og 29% svöruðu þannig árið 2014. Sem fyrr segir telja 58% svarenda í nýrri könnun Gallup og Túrista að fjöldinn nú í sumar hafi verið of mikill.

Það skal þó undirstrikað að hér eru um að ræða mismunandi stór úrtök og spurningin er önnur.