Mest seldu rafbílar ársins

BYD kynnir Atto 3 á bílasýningu í París en sá er mest seldi kínverski rafbíllinn það sem af er ári. MYND: BYD

Kínverskum bílaframleiðendum dugar ekki lengur heimamarkaðurinn og sækja þeir nú með miklum þunga út í heim og þykir ráðamönnum í Evrópu nóg um.

„Ódýrir kínverskir rafbílar flæða inn á heimsmarkaðinn. Verðinu er haldið óeðlilega lágu með háum ríkisstyrkjum,“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, þegar hún flutti stefnuræðu sína í síðustu viku. Þar boðaði hún rannsókn á meintum samkeppnisbrotum Kínverja vegna ríkisstuðnings þeirra og niðurgreiðslna á verði rafbíla til útflutnings líkt og Túristi greindi frá.

Listi yfir mest seldu rafbíla ársins, á heimsvísu, sýnir líka vel hverstu sterk staða kínverskra bílaframleiðanda er orðin. Þar trónir reyndar Tesla reyndar á toppnum en kínverski markaðurinn er sá mikilvægast fyrir bandaríska bílaframleiðandann.

Kínverjar keyptu meira en þriðja hvert eintak sem seldist af Tesla Model Y á fyrsta fjórðungi ársins samkvæmt frétt Reuters og þeir bílar líklegast flestir ef ekki allir framleiddir í verksmiðju Tesla í Sjanghæ.