Mikilvægt að vakta viðhorf heimamanna

Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri. MYND: ÓJ

Erlendir ferðamenn hér á landi voru of margir í sumar að mati 58 prósent þeirra sem tóku þátt í könnun sem Gallup gerði fyrir Túrista í lok ágústmánaðar. Fjórir af hverjum 10 sögðu fjöldann hafa verið hæfilegan sem er mun lægra hlutfall en mælst hefur í sambærilegum könnunum sl. áratug.

Spurður um þessar niðurstöður þá segir Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri, að honum þyki þær mjög áhugaverðar en komi sér ekki sérstaklega á óvart miðað við hvernig umræðan um ferðaþjónustuna hefur verið í sumar.

„Hér er margt forvitnilegt að sjá, til að mynda er yngra fólkið jákvæðara gagnvart ferðamönnum en þeir sem eldri eru,“ bendir ferðmálastjóri á og bætir því við að svona kannanir séu nauðsynlegar. „Við verðum stöðugt að vakta viðhorf heimamanna enda eru þau sjónarmið þeirra afar mikilvæg.“

Ferðmálastofa og Rannsóknarmiðstöð ferðamála hafa frá árinu 2014 kannað hug heimamanna til ferðaþjónustu og ferðamanna og verður næsta rannsókn gerð í haust. Arnar Már segir að það verði fróðlegt að bera saman þá könnun við niðurstöðurnar hér að ofan, sérstaklega í ljósi þess að þá verður lengra liðið frá sumarvertíðinni en raunin var könnun Gallup og Túrista.

„Könnun Ferðamálastofu er lögð fyrir í október þegar háannatíminn er yfirstaðinn og horft er í baksýnisspegilinn. Úrtak Ferðamálastofu er jafnframt talsvert stærra og með ítarlegri greiningu eftir landshlutum. Einnig ætlum við að skoða viðhorf til skemmtiferðaskipa sérstaklega á nokkrum völdum áfangastöðum,“ útskýrir ferðamálastjóri að lokum.