Munu auglýsa eftir fleiri flugmönnum

Icelandair þarf fleiri flugmenn fyrir næstu sumarvertíð. MYND: DENVER FLUGVÖLLUR

Fjórtán af 125 flugmönnum Play sögðu upp störfum sínum í gær og réðu sig til Icelandair. Þessi hópur sótti um vinnu hjá Icelandair í ársbyrjun en þá voru sjö flugstjórar Play ráðnir til starfa hjá keppinautnum. Í ár hefur því 21 flugmaður farið frá Play til Icelandair og ennþá fleiri hafa sýnt því áhuga.

Það bárust nefnilega hátt í fjörutíu umsóknir frá flugmönnum Play í febrúar þegar Icelandair auglýsti síðast eftir flugmönnum.

Og nú hyggst það síðarnefnda auglýsa eftir fleiri flugmönnum.

Það staðfestir Guðni Sigurðsson, talsmaður Icelandair, í svari við fyrirspurn Túrista.

„Við stefnum að því að auglýsa eftir flugmönnum til starfa í næstu viku. Auglýst verður eftir flugmönnum með réttindi og munu þau sem verða tekin inn hefja þjálfun í nóvember. Þjálfunin er umfangsmikil og við auglýsum núna til þess að fólkið geti komið inn í starfsmannahópinn fyrir háönnina 2024.“

Spurður hvort Play þurfi að ráða fleiri flugmenn fyrir veturinn í ljósi þess að fjórtán eru á útleið þá segir Birgir Olgeirsson, talsmaður Play, að forsvarsfólk félagsins muni ekki tjá sig umfram það sem fram kom í tilkynningu fyrr í dag. Þar sagði að fyrrnefndar uppsagnir myndu ekki hafa nein afgerandi áhrif á rekstur eða flugáætlun félagsins.

Play er með 10 þotur í flota sínum og almennt þarf sex til átta áhafnir á hverja þotur eða að lágmarki 120 flugmenn. Hjá Play verða flugmennirnnir að óbreyttu 111 í haust.

Play réði um 20 flugmenn frá erlendri starfsmannaleigu fyrir sumarvertíðina en talsmaður félagsins vill ekki segja til um hvort samningar við þann hóp verði framlengdir í ljósi uppsagna gærdagsins.