Næturlestin brunar á ný

Mikill vöxtur er í lestarsamgöngum á milli Þýskalands og Austurríkis. Deutsche Bahn (DB) og Österreichische Bundesbahnen (ÖBB) fjölga tengingum og bjóða fleiri næturlestarferðir. Búist er við verulegri fjölgun farþega.

Næturlestir eiga að bruna á milli Berlínar og Parísar MYND: DB/ÖBB

Nýtt blómaskeið í lestarsamgöngum er að hefjast í Evrópu og þar ætla DB og ÖBB að leggja sitt af mörkum – og hagnast í leiðinni. Félögin búast við að í lok árs verði farþegar 40 prósentum fleiri en fyrir fimm árum. Þess vegna á ekki síst að fjölga áætlunarleiðum á lengri leiðum – tengja Evrópulöndin betur saman með vistvænni hætti en flugsamgöngur bjóða upp á.  

„Áhuginn á að taka lestina fer mjög vaxandi,“ segir Stefanie Berk, talsmaður DB. „Stöðugt fleiri Þjóðverjar og Austurríkismenn velja vistvænar lestarsamgöngur þegar þeir ferðast til nágrannalanda. Við viljum stuðla að enn meiri framgangi þessa ferðamáta með nýjum lestum, fleiri tengingum og meiri þægindum. Þessu markmiði verður aðeins náð með sameiginlegu átaki járnbrautarfyrirtækja. Við hjá DB bregðumst við vaxandi eftirspurn með því að fjölga áætlunarleiðum utanlands í nánu samstarfi við ÖBB.“ 

Dr. Sabine Stock, stjórnarmaður hjá ÖBB, segir markmiðið að tvöfalda farþegafjöldann sem fer með næturlestunum fyrir árið 2030: „DB gegnir mikilvægu hlutverki í þessu. Margar næturlestarlínur hefjast og enda í Þýskalandi. Nýju tengingarnar milli Berlínar, Parísar og Brussel – og ný kynslóð næturlesta (Nightjet) í Þýskalandi, eru skýr merki um hversu mikla trú DB og ÖBB hafa á framtíð næturlestanna og að áfram verði stefnt að útvíkkun þjónustunnar. 

Fyrirhuguð áætlun um fleiri tengingar – MYND: DB/ÖBB

Í desember bætist við tenging milli Berlínar og Vínar um Nürnberg. Framlenging til Hamborgar tryggir daglega lestartengingu norður-þýsku borgarinnar við höfuðborg Austurríkis. Frá sama tíma bjóða DB og ÖBB upp á ferðir frá Berlín til Innsbruck – og til baka um Frankfurt og Stuttgart á hverjum degi. Nú er þetta aðeins í boði um helgar. Í framtíðinni munu langlínulestir tengja München og Salzburg á klukkustundar fresti frá klukkan sex að morgni til níu að kvöldi. 

ÖBB og DB ætla að taka í gagnið nýjar lestir um leið og aukið verður samstarf í næturþjónustu félaganna, Næturlestin á að bruna frá Berlín og Vín til Parísar og Brussel þrisvar í viku frá desember. Stefnt er að því að þessar næturlestarferðir verði í boði daglega frá haustinu 2024. Með þessu tvöfaldast framboð á næturlestarferðum frá Berlín. Um leið er stefnan sett á að bæta við tengingum við Ítalíu á næsta ári. Þetta aukna samstarf DB og ÖBB er enn eitt dæmið um uppganginn í lestarsamgöngum í Evrópu en innviði hefur víða skort til að mæta kröfum um auknar lestarsamgöngur. Endurnýja þarf brautir, bæta tengingar og auka nútímaþægindi um borð í sjálfum farkostunum.