Play dregur afkomuspána til baka

MYND: ÓJ

Stjórnendur Play reikna ekki lengur með því að rekstrarafkoman (Ebit) verði jákvæð í ár. Skýringin er hækkandi verð á eldsneyti að því segir í tilkynningu.

„Frá lokum síðasta ársfjórðungs hefur flugvélaeldsneyti, sem er langstærsti einstaki kostnaðarliður félagsins, hækkað um fjórðung. Ein af lykilforsendum fyrir afkomuspá ársins var stöðugt eldsneytisverð og mun þessi mikla hækkun, ásamt öðrum almennum kostnaðarhækkunum vegna verðbólgu í heiminum, hafa neikvæð áhrif á afkomu félagsins seinni hluta ársins 2023. Því gerum við ekki ráð fyrir að EBIT afkoma ársins 2023 verði jákvæð eins og áður hafði verið spáð en þó er ljóst að um mjög umtalsverðan viðsnúning í rekstri verður að ræða frá fyrra ári og að lausafjárstaða félagsins verði áfram heilbrigð.“

Eins og Túristi greindi frá í gær þá fór tonn af þotueldsneyti yfir 1000 bandaríkjadollara í vikunni og hefur verðið ekki verið þetta hátt það sem af er ári. Play, líkt og Icelandair, hafði hins vegar tryggt sér umtalsverðan hluta af eldsneytisnotkun sinni á mun lægra verði eins og sjá má hér fyrir neðan.

Þrátt fyrir það þá hefur hækkunin það mikil áhrif á rekstur Play að afkomuspáin hefur verið dregin til baka sem fyrr segir.