Rafskúturnar horfnar í París

Parísarbúar gengu inn í daginn án þess að reka tærnar í rafskútur á gangstéttum borgarinnar. Þær eru horfnar, eins og lofað var eftir að bann var samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu í apríl.

Hjólað og ferast í vistænum strætisvagni í París. MYND: ÓJ

Nýr mánuður, ný götumynd í París. Þar eins og í flestum öðrum borgum hafa rafskútur verið áberandi síðustu árin. Eftir miklar kvartanir, slys og óhöpp mætti þessi nýi samgöngumáti andstöðu meðal íbúa og yfirvöld ákváðu að bregðast við. Eins og Túristi sagði frá á sínum tíma var þátttaka í atkvæðagreiðslu meðal borgarbúa um framtíð rafskútanna þó afar dræm eða 7,5 prósent. En í París virða menn atkvæðagreiðslur þó fáir taki þátt í þeim.

Rafskútur við veitingahús í París í sumar – MYND: ÓJ

Fimm ára blómaskeiði rafskútunnar í París lauk 1. september 2023. Radio France International hefur eftir konu sem notast hefur við rafskúturnar að þessi málalok séu sorgleg. Það hafi verið svo þægilegt að geta skotist á milli staða án þess að nota bíl og lenda í umferðarteppu. Önnur fagnar því að öryggi vegafarenda aukist. Farsælla sé að notast við reiðhjól eða taka strætó og neðanjarðarlestina.

David Belliard, varaborgarstjóri, sem hefur samgöngumál á sinni könnu, segir að þrátt fyrir að skútuleigurnar hafi tekið sig á og dregið hafi úr slæmri umgengni þá dugi það ekki til. Aðstæður sem skúturnar skapi í umferðinni og þrengslin á gangstéttunum séu ekki ásættanlegar.

Þrjú leigufyrirtæki, Lime, Tier og Dott, hafa smám saman að undanförnu fjarlægt um 15 þúsund skútur og sent þær nothæfu til annarra borga, þ.á m. Kaupmannahafnar og Lundúna. Einhverjar verða þó eftir í bæjum og hverfum utan borgarmarka Parísar. Leigufyrirtækin vonast til að halda einhverjum hluta viðskiptanna með því að auka framboð á reiðhjólum í París. En allir sem kunnu að meta kraft og lipurð rafskútanna syrgja þær í dag í París.

Tómlegur leigustandur fyrir reiðhjól í París – MYND: ÓJ