Fyrsta skipið sem var tengt nýrri aðveitustöð á Faxagarði heitir Maud, gert út af Hurtigruten, skráð í Tromsö í Noregi. Áhöfn skipsins og gestir sem biðu við höfnina ráku upp stór augu þegar stjórnmálamennirnir tveir sem höfðu hlutverki að gegna við opnun nýju aðveitustöðvarinnar birtust: Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður stjórnar Faxaflóahafnar, mættu brosandi og glaðleg – en studdust bæði við hækju.

Innviðaráðherra ræðir við áhöfn Maud – MYND: ÓJ
Þau eru að eigin sögn á góðum batavegi eftir aðgerðir. Sigurður Ingi hafði á orði við norska áhöfn Maud að þetta sýndi hversu erfitt það væri að vera stjórnmálamaður á Íslandi.
Andrúmsloftið var gott þarna á Faxagarði.

World Traveller og Maud við Faxagarð – MYND: ÓJ

Ocean Explorer við Miðbakka. Skipið strandaði við Grænland og komst í heimsfréttirnar – MYND: ÓJ
Auk Maud lá við Faxagarð skipið World Traveller, sem fresta þurfti för vegna veðurs – og við Miðbakka var Ocean Explorer, sem strandaði á Grænlandi nýverið en er nú komið í skjól í Reykjavikurhöfn, þar sem það verður skoðað. Þetta er í fyrsta skipti í sögu gömlu Reykjavíkurhafnar að þrjú skemmtiferðaskip liggja þar samtímis.

Aðveitustöðin á Faxagarði – MYND: ÓJ
„Landtengingar hafna er risaverkefni,“ sagði Þórdís Lóa þegar hún bauð gesti velkomna. Hún sagði að margir þyrftu að koma að slíku verki og gera þyrfti áætlanir til langs tíma. „Þetta er ævintýralega flókið en afskaplega gaman. Við höfum lagt áherslu á að þetta er hluti af okkar loftslagsmarkmiðum. Við erum með alveg skýra stefnu hjá Faxaflóahöfnum hvert við erum að fara.“

Þórdís Lóa ávarpar gesti. Hafnarstjóri og innviðaráðherra við hlið hennar – MYND: ÓJ
Maud kom til Reykjavíkur í morgun og varð fyrst skemmtiferðaskipa til að fá rafmagn um landtengingu í Reykjavíkurhöfn. Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri, sagði að þetta væri mikilvægur áfangi. Í desember í fyrra hafi landtenging fyrir flutningaskip Eimskips komist á við Sundabakka. Nú væri komið að skemmtiferðaskipunum í gömlu Reykjavíkurhöfninni. Landtengingin í gömlu höfninni býður upp á 1,5 megavatt en ætlunin er að í Sundahöfn verði 10 sinnum aflmeiri tenging á næstu árum fyrir stóru skipin. Faxaflóahafnir og Veitur eru í samstarfi um það verkefni.

Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri – MYND: ÓJ
„Evrópusambandið hefur sett það sem skilyrði fyrir höfn eins og okkar að komin sé landtenging fyrir öll skip fyrir árið 2030 en við ætlum að reyna að gera betur – vera tilbúin áður,“ sagði Gunnar Tryggvason áður en hann afhenti Sigurði Inga skæri til að klippa á borða og taka þannig formlega í notkun þessa nýju aðveitustöð á Faxagarði sem þegar var farin að skila Reykjavíkurorkunni yfir í norska skemmtiferðaskipið.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, klippir á borðann – MYND: ÓJ
„Það er gaman að fá að taka þátt í þessu,“ sagði ráðherra og klippti á borðann.
Nýr kafli er hafinn í að gera viðdvöl skemmtiferðaskipa á Íslandi umhverfisvænni, en miklar umræður hafa orðið um mengun þeirra í höfnum landsins. Við Faxagarð leggjast aðeins skemmtiferðaskip af minni gerðinni. Þau stóru menga meira – og þurfa meiri orku, sem mun kosta átak, mikla orku og kostnað, að skila í höfnum landsins.