Reyna að hemja risana sex

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti í gær lista sinn yfir þau alþjóðlegu tæknifyrirtæki sem hér eftir verða að fylgja strangari reglum en önnur á hinum evrópska stafræna markaði. Beðið hefur verið eftir þessu lista allt frá árinu 2020 en eins og búist var við eru nöfn Apple, Alphabet (Google), Amazon, Meta (Facebook ) og Microsoft á honum að finna.

Bytedance (Tiktok) er þar líka en ekki X (fyrrum Twitter), Snapchat eða Samsung. Ekki er útilokað að þessi fyrirtæki og fleiri bætist við listann síðar að því segir í tilkynningu.

Nýju reglurnar kveða meðal annars á um að risarnir sex verða hér eftir að gefa minni keppinautum alvöru tækifæri á að koma vörum sínum og þjónustu á framfæri á markaðstorgum sínum. Eins verður stórfyrirtækjunum bannað að fylgjast með netnotkun fólks nema það gefi fyrir því samþykki. Neytendur eiga einnig að fá kost á því að eyða út öppum sem hingað til hafa verið föst í símum og tölvum.

Þau fyrirtæki sem gerast brotleg við hinar nýju reglur eiga það á hættu að fá sektir upp á allt að tíund af ársveltu og í versta lagi gæti ESB krafist þess að risarnir minnkuðu umsvif sín, til að mynda með því að selja hluta af starfseminni.