Afkomuspá stjórnenda Icelandair fyrir árið gerði ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu (Ebit) upp á 4 til 6 prósent af tekjum ársins. Nú í kvöld sendi félagið hins vegar frá sér tilkynningu þar sem segir að hlutfallið verði lægra eða 3,3 til 4,3 prósent af tekjum.
Það samsvarar 50 til 65 milljónum bandaríkjadollara eða 6,7 til 8,8 milljörðum króna á gengi dagsins. Til samanburðar var rekstrarhagnaður Icelandair 50 milljónir dollara árið 2017 en 118 milljónir dollara árið 2016.
Áfram er gert ráð fyrir að Icelandair skili hagnaði í ár eftir greiðslu á fjármagnsliðum og sköttum.
„Stjórnendauppgjör félagsins fyrir júlí og ágúst liggja nú fyrir. Afkoma Icelandair í þessum mánuðum endurspeglar góðan árangur í farþega- og leiguflugsstarfsemi félagsins sem skilar töluvert betri rekstrarniðurstöðu en á sama tíma í fyrra. Fraktstarfsemi félagsins hefur hins vegar reynst mjög krefjandi og sá afkomubati sem gert var ráð fyrir við birtingu annars ársfjórðungs hefur ekki skilað sér. Frá sama tíma hefur eldsneytisverð hækkað um tæplega 30 prósent,“ segir í tilkynningu.
Þar kemur jafnframt fram að horfur í farþegaflugi séu góðar og bókunarstaðan sterk það sem eftir lifir árs. Sömuleiðis eru horfur í leiguflugsstarfsemi góðar og nú sé rík áhersla lögð á að koma fraktstarfseminni aftur í jákvæðan rekstur.
Í tilkynningunni er tekið fram að fjárhagsstaða Icelandair sé mjög góð og félagið vel í stakk búið til áframhaldandi arðbærs vaxtar. Horft er til þess að auka framboð um 10 prósent á næsta ári.
Með tilkynningu kvöldsins hafa bæði íslensku alþjóðaflugfélögin fellt úr gildi fyrri afkomuspár með stuttu millibili. Hjá Play er ekki lengur útlit fyrir rekstrarhagnað í ár og þar með meira tapi þegar fjármagnsliðir hafa verið teknir með í reikninginn. Í skýringum Play á þessari breytingu var aðallega vísað til hækkandi olíuverðs líkt og einnig er gert í tilkynningu Icelandair nú í kvöld.
Bæði félög hafa þó tryggt sér umtalsverðan hluta af eldsneytisnotkun ársins á nokkru betri kjörum en sem nema núverandi heimsmarksverði.