Vilja einfalda rekstur lítilla fyrirtækja innan Evrópu

Höfuðstöðvar ESB í Brussel. MYND: KS

Fyrirtæki með færri en 50 starfsmenn teljast vera lítil og nú vill framkvæmdastjórn Evrópusambandsins auðvelda þessum hluta atvinnulífsins að innheimta viðskiptakröfur. Tölfræðin sýnir nefnilega að helmingur þeirra reikninga sem lítil evrópsk fyrirtæki senda til viðskiptavina eru greiddir of seint. Auk þess má rekja fjórða hvert gjaldþrot minnstu fyrirtækjanna til ógreiddra krafna samkvæmt frétt Svenska dagbladet.

Til að vinda ofan af þessari þróun hefur framkvæmdastjórnin gert það að tillögu sinni að önnur fyrirtæki fái í mesta lagi 30 daga til að greiða reikninga frá litlum fyrirtækjum. Í dag er fresturinn 60 dagar.

Til viðbótar við þessa breytingu er lagt til að álagning skatta á lítil og meðalstór fyrirtæki innan Evrópusambandsins verði einfölduð með þeim hætti að skattaskil verði eingöngu bundin við heimalandið. Með þessu er vonast til að draga bæði úr tvísköttun og þörfinni fyrir endurskoðendur á hverjum þeim markaði sem fyrirtækin starfa á.