Starfsmenn bandaríska bílaframleiðandans Tesla í Svíþjóð fóru í verkfall á föstudagsmorgun og snýr krafa þeirra ekki að hærri launum heldur að gerður verði við þá hefðbundinn kjarasamningur. Forsvarsfólk Tesla vill hins vegar lítið með stéttarfélög gera, hvorki í Svíþjóð eða annars staðar. Lausn á deilunni er því ekki í sjónmáli samkvæmt frétt Dagens Industri.
Þar er haft eftir talsmanni sænska verkalýðsfélagsins IF Metall að stjórnendur Tesla hafi hótað starfsmönnum uppsögnum og að réttur þeirra til kaupa á hlutabréfum á sérkjörum verði dreginn tilbaka.
Til viðbótar vill IF Metall meina að stjórnendur Tesla hafi þvingað hluta starfsmanna til að mæta til vinnu. „Skipulögð verkfallsbrot eru mjög sjaldgæft í Svíþjóð og leita þarf aftur til þriðja áratugar síðustu aldar til að finna almenn dæmi um slíkt,“ segir talsmaður verkalýðsfélagsins.
Með almennum kjarasamningi ættu lífeyrisréttindi starfsmanna Tesla að aukast og vinnutíminn að styttast um 8 daga á ári samkvæmt mati IF Metall. Um 130 starfsmenn vinna á verkstæðum bandaríska bílaframleiðandans í Svíþjóð.