Endurkoma serkjahveitis

Bókhveiti er meðal þeirra matvæla sem munu eiga sterka endurkomu og verða áberandi árið 2024. En hvers vegna ættum við að borða það í ríkari mæli?

Grænmetisréttur með góðum skammti af bókhveitikorni MYND: Unsplash/Elena Leya

Talið er að bókhveiti hafi borist til Evrópu með arabískum kaupmönnum á 15. öld og enn í dag gengur það undir heitinu „serkjahveiti“ í Frakklandi, á Ítalíu og Spáni en Serkir eru fornt heiti yfir múslíma. Þrátt fyrir heitið er bókhveiti allskostar óskylt hveiti, enda er það glútenlaust, en það tilheyrir svokallaðri súruætt eins og rabarbari og njóli og er strangt til tekið fræ en ekki korn. Þannig hefur það ríkt næringargildi fræja en býr yfir sömu fjölbreytni í matargerð og korn.

Bókhveiti í blóma (fagopyrum esculentum) með eftirsótt fræin – MYND: Unsplash/Viktor Smoliak

Bókhveiti er einna helst ræktað á norðlægum slóðum en það er harðgerð jurt sem auðveldara hefur reynst að rækta heldur en aðrar korntegundir á borð við bygg og hveiti. Það er einnig algengt í austur-evrópskri og asískri matargerð og hefur á seinni árum notið aukinna vinsælda hjá þeim sem vilja glútenlaust fæði og næringarríkari vöru en hefðbundið korn. Það hefur því einnig átt upp á pallborðið hjá grænmetisætum, grænkerum og þeim sem vilja minnka neyslu dýraafurða, sem kann að skýra aukna eftirspurn eftir því undanfarin ár. Auk þess að vera ríkur trefja- og prótíngjafi er bókhveiti steinefnaríkt ásamt því að innihalda mikið af B-vítamíni og járni.

Bráðhollar bókhveitis-pönnukökur – MYND: Unsplash/Sophia Valkova

Af þessum ástæðum hafði bókhveiti áður skipað sér sess sem heilsuvara en á undanförnum árum hefur heilsufarslegur ávinningur af neyslu þess orðið til þess að æ fleiri kjósa að taka það inn í reglubundnar neysluvenjur sínar.

Bókhveiti má matreiða á ýmsa vegu en það hentar bæði til baksturs og matargerðar. Bókhveitigrautur er síst síðri en hinn klassíski hafragrautur en bókhveiti þarf að leggja í bleyti yfir nótt og elda á háum hita. Að sama skapi er það kjörið meðlæti með hvers konar mat, út í súpur eða salöt og í austur Evrópu má oft rekast á ristað bókhveiti, Kasha, í ýmsum útfærslum.  Soba-núðlur eru gerðar úr bókhveiti sem gerir þær mun næringarríkari en hefðbundið pasta eða núðlur úr algengari korntegundum. Það er því full ástæða til að gefa þessu undrafræi gaum á nýju ári.